Ferðaáætlun

Dagur 1 | 16. Ágúst

Ferðin hefst á flugi með íslenska fararstjóranum okkar frá Keflavík kl. 12:30 til Riga í Lettlandi þar sem við lendum kl. 19:05 á staðartíma. Frá flugvellinum förum við upp á hótelið okkar, Tallink Hotel Riga.

Dagur 2 | 17. Ágúst

Frjáls dagur í Riga. Riga er meira en 800 ára gömul miðaldaborg sem er mikið augnayndi hvert sem litið er og gamli borgarhlutinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Auðvelt er fyrir gangandi vegfarendur að komast leiðar sinnar í gamla hluta Riga eftir steinilögðum strætum þar sem sagan liggur í loftinu. Víðsvegar um gamla bæinn má finna falleg torg sem hýsa bjórgarða, veitingastaði og kaffihús þar sem er tilvalið að setjast niður og gera vel við sig í mat og drykk. Hótelið er á besta stað, mjög miðsvæðis og nánast hægt að ganga hvert sem er.

Við gistum áfram á Tallink Hotel Riga.

Dagur 3 | 18. Ágúst

Þennan daginn ferðumst við áleiðis til Istanbul. Þar tekur innlendi fararstjórinn á móti okkur, fer með okkur á hótelið sem við gistum á alla dvölina í Tyrklandi og segir okkur síðan aðeins frá borginni og fer yfir ferðaplanið með okkur áður en hann kveður. Eftir að við höfum skráð okkur inn og komið okkur fyrir á hótelherbergjum gefst frjáls tími það sem eftir lifir dags þar til við borðum saman kvöldverð á hótelinu.

Við gistum á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 4 | 19. Ágúst

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en haldið er af stað í gangandi skoðunarferð um borgina, með áherslu á gamla bæinn. Fyrsti áfangastaður okkar er Sultan Ahmed torgið í hjarta gamla borgarhutans, þaðan sem bæði Austrómverska keisaradæminu og Tyrkjaveldis/Ósmana var stýrt. Einnig heimsækjum við Hippodrome leikvanginn sem gegndi lykilhlutverki í menningu, íþróttum og stjórnmálum Rómverja alveg til Tyrkjaveldis. Hér skoðum við einnig Obelisk of Theodosius, broddsúla sem á sér sögu allt aftur til ~1500 fyrir formlegt upphaf okkar tímatals, Serpent Column og German Fountain of Wilhelm II.

Næst stefnum við á eina þekktustu byggingu Istanbul, Blue Mosque [Bláa Moskan], sem var byggð á fyrri hluta 17. aldar. Moskan er auðþekkt með turnspírum sínum. Hér munum við staldra við og leiðsögumaðurinn segir okkur frá Islam trú og hvernig hún hefur haft áhrif á Tyrki í aldanna rás. Hagia Sophia er næsti áfangastaður, eitt af undrum lista- og arkitektúrsögunnar en hún var reist af Austrómverska keisaranum Justinian á 6. öld. Eftir heimsókn okkar til Hagia Sophia munum við fara á veitingastað á svæðinu þar sem þeim sem það vilja gefst kostur á að fá sér hádegisverð.

Að loknum hádegisverði förum við og skoðum Topkapi Palace Museum sem var höfuðstaður Soldána Tyrkjaveldis í yfir fjórar alder. Stórfenglegir hallargarðarnir og tilkomumiklar byggingarnar voru ekki einungis heimili hinna konungbornu, hingað var safnað fordæmalausu magni af fjársjóðum á borð við kínverskt postulín, vopn af öllum toga, ritverkum og heilögum gripum frá öllum heimshornum. Hér sjáum við einnig Aya Irene kirkjuna frá árinu 527.

Við endum skoðunarferð dagsins seinnipartinn með heimsókn til kirkju sem er staðsett neðanjarðar, Underground Basilica Cistern sem var byggð árið 526 og kom meðal annars fyrir í James Bond kvikmyndinni “From Russia With Love”. Eftir þessa heimsókn förum við aftur upp á hótel og hittumst um kvöldmatarleytið til að snæða saman kvöldverð á veitingastað á svæðinu.

Við gistum áfram á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 5 | 20. Ágúst

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Við keyrum meðfram virkisveggjum borgarinnar sem hafa staðið frá 5. öld og eru þekkt sem eitt besta dæmi mannkynssögunnar um slíkar borgarvarnir. Næst keyrum við til Pierre Lotti hæðarinnar þar sem við njótum ótrúlegs útsýnis yfir bæði gamla borgarhlutann og Golden Horn, ármynni Alibey and Kağıthane ánna.

Við keyrum yfir eina af hengibrú og upp á Camlica hæðina sem er hæsti útsýnisstaður borgarinnar með óviðjafnanlegu útsýni yfir evrópska borgarhlutann.

Við meðfram strandlengjunni til Kadıköy hverfisins sem er þekkt fyrir sérlega líflega markaði og þar hittum við heimamenn auk þess sem þeim sem það vilja gefst kostur á að fá sér hádegisverð.

Að loknum hádegisverði keyrum við nærri Beylerbeyi höllinni á leið okkar í siglingu um Bosphorussund sem skilur að Asíu og Evrópu. Frá bátnum fáum við magnað sjónarhorn yfir borgina, kastala hennar og kirkjur, hengibrýr og garða. Eftir siglinguna keyrum við aftur upp á hótel og fáum smá frjálsan tíma þar til við hittumst um kvöldmatarleytið til að snæða saman kvöldverð á veitingastað á svæðinu.

Við gistum áfram á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 6 | 21. Ágúst

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Þennan daginn förum við að skoða einn frægasta markað Istanbul, Egyptian Bazaar, sem var settur á laggirnar undir lok 17. aldar og selur meðal annars krydd og aðra matvöru. Ilmurinn sem einkennir markaðinn er upplifun út af fyrir sig.

Þetta er ekki eini slíki markaðurinn sem við munum skoða þennan daginn því við setjum stefnuna á hinn heimsfræga Grand Bazaar sem jafnframt er einn sá elsti í heiminum. Saga hans nær aftur til ársins 1461 og er eitt vinsælasta aðdráttarafl borgarinnar. Þar má finna þjóðleg tyrknesk teppi og svokölluð Kilim teppi, vandaðar leðurvörur og handunna skartgripi úr málmum af öllum toga með steinum af öllum stærðum og gerðum. Arkitektúrinn einn og sér er mögnuð sjón og hefur markaðurinn meðal annars verið notaður í James Bond kvikmyndinni “Sky Fall”. Innlendi leiðsögumaðurinn mun segja okkur frá markaðinum og útskýra fyrir okkur hvernig sé best að bera sig að áður en við förum að skoða það sem þar er í boði.

Hér gefst þeim sem það vilja kostur á að fá sér hádegisverð. Við gefum okkur um 3 - 4 klukkustundir í að skoða markaðinn og njóta þessarar upplifunar áður en við förum í ekta tyrkneskt bað í einu af elstu baðhúsum borgarinnar.

Við endum daginn á því að snæða saman kvöldverð á veitingastað á svæðinu.

Við gistum áfram á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 7 | 22. Ágúst

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu. Skoðunarferð dagsins tekur okkur frá Istanbul til borgarinnar Bursa, fyrstu höfuðborgar Tyrkjaveldisins og fjórða fjölmennasta borg Tyrklands nútímans. Oft er talað um borgina sem “Green Bursa” vegan hinna fjölmörgu garða sem hana prýða og skóglendið sem er allt í kring.

Í þessari heimsókn skoðum við moskur og markaði, þar á meðal hinn fræga silkimarkað - Koza Han. Green Mosque moskan og Green Mausoleum grafhýsið sem bæði voru byggð af soldáninum Mehmet Çelebi á 15. öld.

Eftir að hafa skoðað þessar sögulegu byggingar ferðumst við með rútu upp fjallið Uludağ og njótum hins ótrúlega útsýnis sem blasir við okkur á ferðalaginu.

Hér gefst þeim sem það vilja kostur á að fá sér hádegisverð áður en við keyrum aftur til Istanbul.

Við endum daginn á því að snæða saman kvöldverð á veitingastað á svæðinu.

Við gistum áfram á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 8 | 23. Ágúst

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en við keyrum að bryggju þar sem við förum um borð í ferju sem tekur okkur út að Princes' Islands eyjaklasanum. Klasinn er nefndur eftir íbúum þeirra frá dögum Austrómverska keisaraveldisins þegar fólk af konunglegum ættum var sent þangað í útlegð, sem er algjör andstaða hlutverks þeirra í dag þegar gestir eyjanna fara þangað til að njóta fallegrar náttúru og heillandi umhverfis.

Hús og herrasetur eyjanna frá 19. öld, falleg furutré, veitingastaðir sem sérhæfa sig í sjávarréttum staðsettir við flæðamálið, glæsilegt útsýni og hestvagnar gefa okkur kost á að upplifa Tyrkland á nýjan máta. Hestvagnar eru enn í dag algengasta leiðin til að ferðast um á eyjunum sjálfum.

Eyjan Büyükada, sem þýðir “Stóra Eyjan” á tyrknesku, er áfangastaður okkar. Hér gefst þeim sem það vilja kostur á að fá sér hádegisverð á veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarréttum áður en við förum í skoðunarferð um eyjuna á vögnum. Eftir skoðunarferðina höldum við aftur til Istanbul.

Við endum daginn á því að snæða saman kvöldverð á veitingastað á svæðinu.

Við gistum áfram á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 9 | 24. Ágúst

Dagurinn hefst með morgunverði á hótelinu áður en við förum af stað til borgarinnar Lüleburgaz í fylgd innlends leiðsögumanns. Á leið okkar þangað keyrum við framhjá mörgum sögulega merkum og mikilvægum stöðum og risastórum ökrum sem eru nýttir undir landbúnað. Þegar við komum til Lüleburgaz heimsækjum við síðan vínekru skammt frá borginni. Á leið okkar þangað gefst þeim sem það vilja kostur á að fá sér hádegisverð á veitingastað.

Kvöldverðurinn þennan dag er svo sannarlega spennandi og skemmtileg upplifun. Við komum til með að fara í kvöldsiglingu um Bosphorussund þar sem magadansmær auk fleiri atriða gera kvöldið ógleymanlegt.

Eftir siglinguna förum við aftur á hótelið okkar, við gistum áfram á Kent Hotel Istanbul.

Dagur 10 | 25. Ágúst

Morgunverður á hótelinu og frjáls tími til hádegis þegar við förum út á flugvöll þar sem við eigum flug klukkan 15:50 til Riga í Lettlandi, áætluð lending þar klukkan 18:40 að staðartíma. Frá flugvellinum í Riga keyrum við til strandbæjarins Jūrmala þar sem við munum dvelja næstu þrjár nætur á Baltic Beach Hotel.

Jūrmala er einungis 25 kílómetra frá Riga og er einn allra vinsælasti strandbærinn við Eystrasaltið. Bærinn er þekktur fyrir heilsulindir sínar og náttúruauðlindir af þeim toga eins og heilandi leðju og steinefnaríkt vatn.

Bærinn liggur við fallega 33 kílómetra langa strandlengju með hvítum sandi, er umlukinn einstökum furuskógi og í honum sjálfum mikið af sjarmerandi timburhúsum en í Jūrmala er að finna stærsta stærsta safn sögulegra bygginga í lettneskum timbur-arkitektúr.

Við gistum á Baltic Beach Hotel.

Dagur 11 | 26. Ágúst

Frjáls dagur.

Við gistum áfram á Baltic Beach Hotel.

Dagur 12 | 27. Ágúst

Frjáls dagur.

Við gistum áfram á Baltic Beach Hotel.

Dagur 13 | 28. Ágúst

Heimferðardagur - við förum út á flugvöll seint um nótt og eigum flug klukkan 07:05 heim til Keflavíkur. Við lendum í Keflavík klukkan 08:05.