Ferðaáætlun

Dagur 1 - 6 & 7. Október
Áfangastaðir: Riga, Lettland - Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin
Ferðin hefst á flugi með íslenska fararstjóranum okkar frá Keflavík kl. 12:25 til Riga í Lettlandi þar sem við lendum kl. 19:05 á staðartíma. Förum með sama flugfélagi frá Riga kl.23:25 til Dubai og lendum þar kl. 07:55 á staðartíma. Við förum upp á hótel þar sem við borðum morgunmat og getum hvílst eftir ferðalagið. Þessi dagur er frjáls það sem eftir er.

Morgunverður innifalinn.

Dagur 2 - 8. Október
Áfangastaðir: Nizwa, Oman
Eftir morgunverð höldum við yfir landamærin að Oman að borginni Nizwa, við borðum hádegisverð á leiðinni. Nizwa er ævaforn borg umkringd pálmatrjám sem státar af einstökum arkitektúr en hún var höfuðborg landsins á 6. og 7. öld. Við munum skoða það helsta verður á vegi okkar, meðal annars Nizwa virkið frá 17. öld og markaðinn Nizwa Souq þar sem má finna allt á milli himins og jarðar eins og silfurmuni, ávexti, grænmeti og fleira. Við fáum að sjá hvernig daglegu lífi hér er háttað. Við gistum á hóteli í Nizwa.

Morgun-, hádegis- og kvöldverður innifalinn.

Dagur 3 - 9. Október
Áfangastaðir: Al Hamra, Oman - Birkat al Mauz, Oman - Muscat, Oman
Eftir morgunverð ferðumst við til Jabreen kastalans sem var reistur á 17. öld og er almennt talinn vera ein fallegasta bygging Oman. Áður fyrr var hann jafnfram miðstöð menntunar á þessu svæði. Okkar næsti áfangastaður er Bahla virkið, það fyrsta sinnar tegundar sem var byggt í arabískum stíl í Oman. Eftir að við höfum skoðað okkur um þar liggur leið okkar upp í fjöllin að bænum Al Hamra þar sem hús úr hlöðnum leir og steinilagðar götur láta okkur líða líkt og við höfum ferðast aftur í tímann. Við rætur Jebel Akhdar fjalla er að finna þorpið Birkat al Mauz sem er hvað þekktast fyrir afkastamikla bananarækt, múrsteinsvirki og 17. aldar mosku sem gefa þorpinu sérstakan blæ. Í lok dags höldum við til höfuðborgar Oman, Muscat, þar sem við gistum á hóteli.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 4 - 10. Október
Áfangastaðir: Muscat, Oman
Eftir morgunverð skoðum við menningarborgina Muscat. Þessi fagra borg liggur að Omanflóa og er umlukin fjöllum og eyðimörk. Sultan Qaboos moskan er okkar fyrsti viðkomustaður, vægast sagt sannkölluð arkitektúr meistarasmíði sem við skoðum áður en við förum til Kongunglega Óperuhússins í miðbænum, þessi bygging gefur höllinni lítið eftir hvað varðar glæsileika. Við heimsækjum vinsælustu áfangastaði borgarinnar eins og Mutrah Souq markaðinn sem er þekktastur fyrir fallegt og vandað handverk úr silfri sem og aðra minjagripi, hér er hægt að gera góð kaup. Við skoðum þjóðminjasafn borgarinnar og fræðumst um sögu og menningu landsins frá fyrstu byggð mannsins á Omanskaga - um tveggja milljóna ára löng saga!

Við heimækjum einnig þorpið Sidab sem er einskonar úthverfi Muscat borgar og kynnumst þar hópi kvenna, Sidab Women Group, sem býður upp á kynningu á menningu og siðum lands og þjóðar. Þar gefst okkur kostur á að blanda geði við heimamenn, lært meira um Oman og smakkað hefðbundinn mat og drykki heimamanna. Hér getum við einnig keypt fallega og litríka muni og klæðnað sem er handunnið af meðlimum hópins. Við endum daginn á hóteli í Muscat.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 5 - 11. Október
Áfangastaðir: Strandlengja Muscat
Eftir morgunverð skoðum við hina sérlega fallegu strandlengju Oman. Við ferðumst í gegnum skarð til Wadi Shab sem er einstakt náttúrufyrirbrigði - afskekkt gil með falinni laug af volgu, kristaltæru vatni umkringt klettum og döðlu- og bananatrjám. Við tökum létta göngu um svæðið og njótum náttúrufegurðarinnar. Næst höldum við til Bimmah Sinkhole, annars náttúruundurs - kalksteinsgígur sem myndaðist þegar nálægt fjall hrundi, svæðið fylltist af sjó og myndaði náttúrulega vin. Hægt er að synda á báðum þessum stöðum.

Við keyrum síðan til Muscat þar sem við gistum á hóteli.

Morgun- og hádegisverður innifalinn.

Dagur 6 - 12. Október
Áfangastaðir: Al Ain, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin - Abu Dhabi, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin

Eftir morgunverð keyrum í um 6-7 klst. til Al Ain borgar í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum með nokkrum stoppum og hádegisverð á leiðinni. Borgin er innarlega í landi í austur-hlutanum. Mikill gróður einkennir borgina og er hún þekkt sem borg fallegra garða sökum glæsilegra pálmatrjáa og náttúrulegra lauga sem finna má víðsvegar um hana. Frá Al Ain höldum við til Abu Dhabi. Þegar þangað er komið förum við inn á hótel og höfum frjálsan tíma restina af deginum. 

keyrum nú í 6-7 tima með stoppi á leiðinni nokkrum sinnum til Al Ain borgar sem er í Sameinuðu Arabisku furstad. Hádegisverður á leiðinni. Borginn er inni landi i austur hluta landsins. Mikill gróður einkennir borgina og er hún þekkt sem borg garðanna, sökum pálmatrjánna og náttúrulegra lauga. Frá Al Ain höldum við til Abu Dhabi. Þegar þangað er komið förum við inná hótel, restin af deginum er frjáls.

Morgun- og hádegisverður innifalinn. 

Dagur 7 - 13. Október
Áfangastaðir: Abu Dhabi, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin - Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin
Eftir morgunverð förum við í skoðunarferð um höfuðborg Sameinuðu Arabísku Furstadæmana, Abu Dhabi. Borgin er afar nútímaleg en hefur að geyma marga menningarlega fjársjóði og einstaklega fallegar byggingar byggðar í arabískum stíl eins og höll konungsins, Qasr Al Watan og Sheik Zayed Grand moskuna - sú stærsta í landinu og ein sú stærsta í heiminum. Að skoðunarferð lokinni höldum við til Dubai og gistum á hóteli þar.

Morgun- og hádegisverður innifalinn. 

Dagur 8 - 14. Október
Áfangastaðir: Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin - Burj Khalifa, Dubai - Eyðimerkur Safarí

Dubai er í dag mjög nútímaleg borg, þekkt fyrir risavaxna skýjakljúfa. Við skoðum þessa einstöku borg og kynnumst daglegu lífi borgara hennar. Við komum til með að skoða hafnarsvæðið, Jumeirah ströndina og förum inn í hæstu byggingu heims - Burj Khalifa, sem er 830 metra hár skýjakljúfur. Í heimsókn okkar þangað förum við alla leið upp á 124. hæð og upplifum einstakt útsýni yfir borg og land. Við munum hafa frjálsan tíma þar sem fólki gefst kostur á að skoða sig um í Dubai Mall og snæða hádegisverð, mikið úrval af spennandi veitingastöðum þar. Við förum síðan upp á hótel áður en lengra er haldið.

Seinni partinn höldum við á vit ævintýranna i eyðimerkur-safarí fyrir utan borgina, þetta er upplifun sem ekki er hægt að láta framhjá sér fara í ferð sem þessari. Við verðum sótt upp á hótelið af fjórhjóladrifnum jeppum og keyrð út í eyðimörkina þar sem gullnar sandöldur ná svo langt sem augað eygir. Okkur gefst tækifæri á að fara á bak úlföldum, fyrir þá sem það vilja. Við heimsækjum búðir Bedúína þar sem við snæðum kvöldmat og njótum skemmtiatriða að hætti heimamanna. Við endum daginn á hóteli í Dubai.

Morgun- og kvöldverður innifalinn. 

Dagur 9 - 15. Október
Áfangastaðir: Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin - Dhow Höfnin, Dubai
Eftir morgunverð höfum við frjálsan dag í Dubai, hægt er að rölta um og skoða borgina, fara í verslunarleiðangur, hvað sem okkur dettur í hug. Klukkan 19:00 förum við síðan saman í kvöldverð á þjóðlegum viðarbát sem er byggður í Arabískum stíl. Við siglum um hafnarsvæðið og njótum einstaklega fallegs útsýnis með upplýstum skýjakljúfrum sem teygja sig til himins fyrir aftan höfnina. Endum daginn á hóteli.

Morgun- og kvöldverður innifalinn.

Dagur 10 - 16. Október
Áfangastaðir: Al Bastakiya, Dubai - Al Fahidi, Dubai
Ógnarháir skýjakljúfar og nútímalegar byggingar sem hafa risið í eyðimörkinni er það sem Dubai er einna þekktust fyrir í dag. Gamli borgarhlutinn er mjög spennandi og gömlu hefðirnar hafa varðveist vel þar. Við munum skoða eitt elsta hverfi borgarinnar, Al Bastakiya og Al Fahidi hverfið. Við munum meðal annars ferðast með leigubát, svokölluðum Abra sem heur ferjað heimamenn þvert um Dubai í áratugi, röltum um svokallaða souk markaði og heimsækjum Jumeirah moskuna. Við snæðum saman hádegisverð þar sem við smökkum þjóðlega rétti að hætti heimamanna í Menningarmiðstöð Skeikh Mohammed sem er staðett í Al Fahidi hverfinu. Förum síðan upp á hótel.

Morgun- og hádegisverður innifalinn. 

Dagur 11 - 17. Október
Áfangastaðir: Frjáls dagur í Dubai
Frjáls dagur, gistum á hóteli.

Morgunverður innifalinn.

Dagur 12 - 18. Október
Áfangastaðir: Frjáls dagur í Dubai
Frjáls dagur, gistum á hóteli.

Morgunverður innifalinn.

Dagur 14 - 19. Október
Áfangastaðir: Riga, Lettland

Flugið okkar frá Dubai er klukkan 08:55 og lendum við í Riga klukkan 14:45 á staðartíma. Við förum í skoðunarferð um þessa fögru miðaldaborg og gistum síðan á hóteli í miðbænum.

Morgunverður innifalinn.

Dagur 15 - 20. Október
Áfangastaðir: Keflavík, Ísland
Flugið okkar frá Riga til Íslands er klukkan 10:45 og við lendum í Keflavík klukkan 11:40.