Dagur 1 | 27. Janúar
Áfangastaðir: New York, Bandaríkin
Við fljúgum til New York í Bandaríkjunum klukkan 17:00 og áætluð lending þar klukkan 18:10 að staðartíma. Við gistum á Radisson JFK Hotel þar til við tökum flug áleiðis til Mexíkó morguninn eftir.
Dagur 2 | 28. Janúar
Áfangastaðir: Cancún, Mexíkó | Playa del Carmen, Mexíkó
Við lendum á flugvellinum í Cancún klukkan 12:50 að staðartíma. Þegar við erum komin með farangurinn keyrum við áleiðis til Playa del Carmen strandarinnar þar sem við skráum okkur inn á hótelið okkar og síðan gefst frjáls tími út daginn til að ganga niður fimmtu breiðgötu [5th Avenue], skoða hótelsvæðið eða kíkja niður á strönd.
Við hittumst um kvöldið og snæðum saman kvöldverð.
Dagur 3 | 29. Janúar
Áfangastaðir: Akumal Bay, Mexíkó | Chicanná, Mexíkó
Við hefjum daginn snemma, að loknum morgunverði förum við til Akumal flóans þar sem við munum snorkla með risaskjaldbökum í kristaltærum sjónum við Mesoamerican Barrier Reef. Leiðsögumaður okkar þar mun fræða okkur um lífríki hafsins og verndurnarstarfið sem fer fram þar.
Eftir snorklið keyrum við áleiðis til Chicanná sem er sjálfbærnisþorp í frumskóginum, hér gistum við yfir nótt og njótum saman kvöldverðar þar.
Dagur 4 | 30. Janúar
Áfangastaðir: Calakmul Biosphere Reserve, Mexíkó | Palenque, Mexíkó
Calakmul Biosphere Reserve er á heimsminjaskrá UNESCO, þessi náttúruparadís er heimili fánu og flóru af öllum toga. Á göngu okkar um frumskóginn sjáum við rústir Maya samfélags sem bjó þar, dýr eins og apa og túkan fugla svo eitthvað sé nefnt.
Seinnipartinn keyrum við af stað til bæjarins Palenque og njótum hins einstaka útsýnis sem blasir við okkur á þessari sex tíma keyrslu.
Við borðum saman kvöldverð í Palenque og gitum þar yfir nóttina.
Dagur 5 | 31. Janúar
Áfangastaðir: Palenque, Mexíkó
Fornleifasvæðið Palenque er áfangastaður dagsins. Áður fyrr var Palenque voldug borg Maya siðmenningarinnar, þekkt fyrir fágaðan byggingarstíl, arkitektúr og fallegt umhverfi.
Seinnipartinn heimsækjum við Roberto Barrios fossana þar sem við getum stungið okkur til sunds og notið frískandi vatnsins áður en við endum daginn á hóteli okkar í Palenque.
Dagur 6 | 1. Febrúar
Áfangastaðir: San Cristóbal de las Casas, Mexíkó
Að loknum morgunverði setjum við stefnuna á bæinn San Cristóbal de las Casas. Á ferðalagi okkar munum við heimsækja einn af hinum fjölmörgu fossum Mexíkó, Misol-Há eða Agua Azul en við munum láta leiðsögumann okkar um að velja hvorn fossinn við heimsækjum á deginum.
Við keyrum um fjallagarða Chiapas héraðsins og njótum stórbrotins útsýnisins sem blasir við okkur. Að loknu ferðalagi okkar eigum við saman stund í San Cristóbal þar sem við borðum kvöldverð áður en við endum daginn á hóteli okkar.
Dagur 7 | 2. Febrúar
Áfangastaðir: San Juan Chamula, Mexíkó | Zinacantán, Mexíkó | San Cristóbal de las Casas, Mexíkó
Þennan daginn munum við kynnast töfrum San Cristóbal, steinilögðum strætum auk litríkra og spennandi markaða áður en við höldum áleiðis til þorpanna San Juan Chamula og Zinacantán þar sem við kynnumst heillandi menningu heimamanna, fáum kynningu á andlegum og trúarlegum siðum þeirra og handverksframleiðslu textílefna.
Við endum daginn á sameiganlegum kvöldverði í San Cristóbal áður en haldið er aftur á hótelið.
Dagur 8 | 3. Febrúar
Áfangastaðir: San Cristóbal de las Casas, Mexíkó
Frjáls dagur í San Cristóbal þar sem hægt er að heimsækja söfn, listamarkaði, kaffi- og veitingahús eða hvíla sig fyrir næsta legg ferðarinnar.
Hér gefst þeim sem hafa áhuga á tækifæri til að skrá sig í bátsferð um Sumidero gljúfrið þar sem himinhá björg og krókódílar bíða ævintýraþyrstra ferðalanga.
Gistum áfram í San Cristóbal.
Dagur 9 | 4. Febrúar
Áfangastaðir: El Ceibo, Mexíkó | Flores, Gvatemala
Við leggjum af stað í morgunsárið áleiðois til El Ceibo þar sem við förum í gegnum landamærin til Gvatemala,keyrslan mun taka um það bil sjö klukkustundir og býðst okkur þá frábært tækifæri til að njóta hins framandi landslags sem við ferðumst um.
Þegar við höfum farið yfir landamærin keyrum við til Flores sem er hrífandi bær sem er staðsettur við Petén Itzá stöðuvatnið, hér er hægt að fá sér notalega sólsetursgöngu eftir að við höfum skráð okkur inn á hótelið.
Við borðum saman kvöldverð hér og gistum yfir nótt.
Dagur 10 | 5. Febrúar
Áfangastaðir: Tikal National Park, Gvatemala | San Ignacio, Belís
Tikal þjóðgarðurinn er áfangastaður dagsins sem geymir stórbrotnar leifar Maya borgar auk framandi dýralífs. Hér fáum við tækifæri til að ganga upp á pýramíðana sem er ekki hægt allstaðar.
Að lokinni heimsókn okkar í þjóðgarðinn keyrum við til bæjarins San Ignacio í Belís þar sem við snæðum saman kvöldverð og gistum yfir nótt.
Dagur 11 | 6. Febrúar
Áfangastaðir: Belize City, Belís | Caye Caulker, Belís
Að loknum morgunverði ferðumst við til Belís borgar þar sem við tökum ferju til bíllausu paradísareyjunnar Caye Caulker þar sem við skráum okkur inn á hótelið okkar. Það sem eftir lifir dags fáum við frjálsan tíma til að slaka á við karabískt hafið og njóta þess sem eyjan hefur upp á að bjóða.
Dagur 12 | 7. Febrúar
Áfangastaðir: Hol Chan Marine Reserve, Belís | Caye Caulker, Belís
Þennan daginn munum við fara til Hol Chan Marine Reserve, eins af fremstu verndunargörðum og vinsælustu slíkum áfangastöðum Belís. Hér syndum við með hákörlum, skötum, skjaldbökum og upplifum kóralrifin við Belís á einstakan máta. Eftir að við höfum lokið formlegri dagskránni er frjáls tími það sem eftir lifir seinnipartsins.
Þeim sem hafa áhuga á býðst að skrá sig í sólseturs siglingu.
Við endum daginn á hóteli okkar á Caye Caulker.
Dagur 13 | 8. Febrúar
Áfangastaðir: Chetumal, Mexíkó | Bacalar, Mexíkó
Við förum aftur til Chetumal í Mexíkó með ferju um morguninn. Eftir að við höfum klárað að fara í gegnum landamæraeftirlitið keyrum við til bæjarins Bacalar sem er þekktast fyrir lónið Lagoon of Seven Colors.
Eftir að við höfum skráð okkur inn á hótelið okkar fáum við frjálsan tíma til afslöppunar á ströndinni í Bacalar.
Dagur 14 | 9. Febrúar
Áfangastaðir: Playa del Carmen, Mexíkó
Njótum frjáls tíma fyrri part dagsins í Bacalar þar sem okkur býðst að fara á kajak, paddleboard og fleira. Upp úr hádeginu leggjum við af stað áleiðis til Playa del Carmen strandarinnar þar sem við skráum okkur inn á Viva Wyndham hótelið. Hér njótum við seinasta kvöldsins í Mexíkó.
Dagur 15 | 10. Febrúar
Áfangastaðir: Playa del Carmen, Mexíkó
Frjáls dagur.
Dagur 16 | 11. Febrúar
Áfangastaðir: Cancún, Mexíkó | New York, Bandaríkin | Keflavík, Ísland
Við eigum flug frá Cancún til New York klukkan 08:30 um morguninn og áætluð lending í Bandaríkjunum er klukkan 12:50 að staðartíma. Við förum síðan af stað frá New York heim til Íslands klukkan 19:25 og áætluð lending heima klukkan 06:10 umm morguninn þann 12. Febrúar.