Gozo er töfrandi eyja skammt frá Möltu og munum við sigla til hennar með ferju. Aðkoman er hin glæsilegasta, þegar við siglum inn hafnarmynnið tekur á móti okkur friðsæl höfnin og snotur kirkja sem trónir yfir henni.
Eyjan er um 67 km² að stærð og þar búa rétt um 34.000 manns. Gozo er þekkt fyrir afslappað andrúmsloft og margir heimamenn lýsa henni á þann veg að hún sé eins og Malta var á árum áður. Margir vilja meina að tíminn líði hægar á Gozo en annarsstaðar í heiminum.
Sjarmi eyjunnar er margþættur - gróskumikið landslagið teygir sig um eyjuna alla og bæði landbúnaður og fiskveiðar spila stórt hlutverk í daglegu lífi eyjaskeggja. Saga eyjunnar er hluta til goðsagnakennd, talið er að eyjan gæti verið hin dularfulla en friðsæla Calypso úr Ódysseifskviðu Hómers.
Þennan dag fá gestir tækifæri til að upplifa sumar af þekktustu hefðum eyjunnar sem byrjar á bátsferðinni frá Möltu. Okkar fyrsti áfangastaður er Ta Massar vínekran þar sem við smökkum afurðir frá eyjunni og fáum kynningu á framleiðsluferlum vínekrunnar.
Þaðan förum við til Marsalforn þar sem heimamenn verka salt en saga þessa iðnaðar á Gozo nær aftur til tíma Mölturiddaranna. Meðfram Norður-strönd Gozo sjáum við þessi 350 ára gömlu lón teygja sig meðfram strandlengjunni um 3 kílómetra leið. Þetta er ekki einungis áhugaverð sjón því þau eru hluti af menningu eyjunnar og hafa sumar fjölskyldur starfað við saltframleiðsluna í margar kynslóðir.
Á leið okkar þangað munum við einnig skoða Basilica of the National Shrine of the Blessed Virgin of Ta' Pinu sem var byggt á milli áranna 1920-1931. Ta Pinu er byggingarlistaverk með meiru, það er tilkomumikið ásýndar að utan og ekki síðra að innan með höggmyndum og glæsilegu handverki úr Maltnesku bergi. Helgistaðurinn var reistur fyrir framan kapelluna sem stóð þar upphaflega en hana átti að rífa árið 1575 að beiðni Pietro Dusina sem kom þangað á vegum Gregory XIII páfa en sagan segir að verkamaðurinn sem tók fyrsta (og eina) höggið hafi handleggsbrotnað við það. Var það túlkað sem fyrirboði um að kapellan ætti ekki að vera rifin og varð hún því sú eina á eyjunni sem var ekki eyðilögð.
Við altari kirkjunnar má enn finna málverkið Assumption to Heaven of Our Lady sem sagan segir að hafa talað til kotbóndans Karmni Grima í Júní árið 1883 og varð eftir það þekkt sem helgiskrín tileinkað Maríu Mey og enn þann dag í dag kemur mikill fjöldi fólks í pílagrímsferð hingað.
Fjórtán marmarastyttur liggja upp Ghammar hæðina gagnstætt kirkjunni sem tákna Via Crucis - sem sýna þrautagöngu Jesú Krists er hann gekk upp Calvary fjall til krossfestingar sinnar.
The Azure Window eða Dwejra Window var 28 metra hár náttúrulegur bogi úr bergi sem hafði staðist tímans tönn þar til 2017 þegar að hann brotnaði í stormi. Við munum staldra við þar og kynna okkur Dwejra flóann og aðliggjandi svæði sem er sannkallaður griðastaður stórbrotinnar náttúru.
Boginn hafði komið við í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við kvikmyndina The Count of Monte Cristo og þættina Game of Thrones áður en hann skemmdist í storminum og var það gríðarlegur missir fyrir Maltverja.
Þrátt fyrir að boginn hafi sundrast þá er hann enn mjög vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn. Hér finnum við einnig The Blue Hole sem er náttúrulega mótað lón við sjóinn og tengist honum í gegnum neðanjarðargöng. Þetta er einn vinsælasti áfangastaðurinn í Evrópu fyrir kafara þar sem fegurðin undir yfirborðinu er óviðjafnanleg.
The Inland Sea er smár einangraður flói við Dwejra sem tengist sjónum í gegnum 80 metra löng náttúruleg göng en dýptin er allt frá 6 metrum í 25 metra þegar komið er út að sjónum. Það er ótrúlega fallegt sjónarspil þegar sólin skellur á djúpbláu hafinu sem lifir í minningunni þegar heim er komið.
Verð á einstakling: 24.400
Dagsetning: Verður birt síðar
Athugið | Öll leiðsögn í skoðunarferðum ytra er í höndum enskumælandi leiðsögumanna.