Ferðaáætlun

Dagur 1 | 7. Október
Áfangastaðir: Riga, Lettland

Við fljúgum til Riga í Lettlandi klukkan 12:30 og lendum þar klukkan 19:05 að staðartíma. Riga er meira en 800 ára gömul miðaldaborg sem er mikið augnayndi hvert sem litið er og gamli borgarhlutinn er á heimsminjaskrá UNESCO, við gistum á Tallink Hotel Riga.

Dagur 2 | 8. Október
Áfangastaðir: Valletta, Malta

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Við fljúgum frá Riga klukkan 10:45 og lendum á Möltu klukkan 13:25 að staðartíma. Förum þaðan upp á hótel og slökum aðeins á eftir ferðalagið.

Seinni partinn förum við og skoðum Malta National Aquarium sem er vægast sagt einstakt safn, samsett af 41 fiskabúrum og annarskonar búrum þar sem reynt er að líkja eftir umhverfi sjávarins og heimkynnum skrið- og froskdýra. Í safninu eru margar tegundir af fiskum sem lifa í sjónum umhverfis Möltu, þar af nokkrar tegundir af hákörlum og álum. Gestir fá að upplifa einstaka nálægð við fiskana og sjá eftirgerðir af fornminjum sem annars má finna víða í sjónum við strendur Möltu. Stærsti tankurinn er um 12 metrar að þvermáli og er hægt að ganga í gegnum göng sem liggja í gegnum tankinn og sjá dýrin betur. Sjávarminjasafnið er í nokkurskonar byggingarsamstæðu sem er í laginu eins og stjörnufiskur og þar má finna fleiri hluti en safnið sjálft, meðal annars veitingahúsið La Nave Bistro þar sem við borðum kvöldverð og njótum fallegs útsýnis yfir sjóinn. Þaðan höfum við einstakt útsýni yfir sjóinn. Að loknum kvöldverði göngum við upp á hótelið okkar sem er í fimm mínútna fjarlægð frá veitingastaðnum.

Við gistum á Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 3 | 9. Október
Áfangastaðir: Valletta, Malta

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Höfuðborgin Valletta, The Fortress City, Citta Umilissima eða “borgin sem var byggð af göfugmennum fyrir göfugmenni”, er höfuðborg Möltu og miðstöð verslunar á eyjunum. Borgin er nefnd eftir stofnanda hennar og þekktasta Stórmeistara Mölturiddara, hinum dáða Jean Parisot de la Valette. Þessi stórbrotna virkis-borg reis á bergi Sceberras fjallsins og aðliggjandi skaga fyrir ofan hafnirnar tvær, Marsamxett og Grand Harbour. Bygging borgarinnar hófst árið 1566 og lauk á undraverðum tíma, einungis 15 árum, með tilheyrandi varnarvirkjum, virkisveggjum og dómkirkju. Það sem gerir þetta afrek enn merkilegra er að borgin var byggð með handafli einu og þeim tólum sem til voru á þeim tíma. St. John's riddarareglan stýrði eyjunum í 268 ár og má víða sjá einstök menningarleg áhrif þeirra í borginni.

Við hefjum daginn á heimsókn á nýmóðins sýningu þar sem umhverfið er virkur hluti af upplifuninni. Saga Möltu er rakin á spennandi hátt á tjaldi í 3D þar sem við sitjum í sætum sem hreyfast, léttur vatnsúði og loftblásarar láta okkur líða eins og við séum stödd utandyra. Þetta er svo sannarlega eftirminnileg upplifun. Í anddyrinu er einnig hægt að skoða listaverk eftir Maltneska listamenn.

Við heimsækjum The Upper Barracca Gardens sem er friðsæll reitur í hjarta borgarinnar, nærri Castille Palace. Frá þessum görðum er frábært útsýni yfir Grand Harbour auk borganna Senglea, Vittoriosa og Kalkara. Þessir garðar eru byggðir ofan á gömlu virki á hæsta punkti Valletta og má rekja sögu þeirra aftur til ársins 1661 þegar að garðurinn var einkagarður Mölturiddaranna.

Það var ekki fyrr en 150 árum síðar sem garðarnir voru opnaðir almenningi og í dag geta gestir dáðst að litadýrð hinnar fjölbreyttu flóru plantna og trjáa sem þar er að finna. Hér eru styttur og minnismerki víðsvegar, meðal annars Les Gavroches brons skúlptúrinn sem og stytta tileinkuð Winston Churchill sem á rætur sínar að rekja til Seinni Heimsstyrjaldar en undir hvatningu forsætisráðherrans stóðu eyjan af sér gríðarlega miklar loftárásir og eyðileggingu án þess að missa móðinn eða baráttuanda sinn.

Við heimsækjum St. John’s Co-Cathedral sem var byggð cirka árið 1570 sem kirkja fyrir Mölturiddarana og er ekki einungis mest heimsótta kirkja Möltu því hún er einnig sú glæsilegasta. Tilkomumikið kirkjuloftið og myndverk, gylltir bogar og verk eftir Mattia Preti eru hluti af glæsilegri arfleið barokk-tímans. Einnig er marmaragólf kirkjunnar þakið stórfenglegum legsteinum til minningar um ýmis mikilmenni Mölturiddaranna sem þar sofa sínum hinsta svefni. Innar í kirkjunni komum við að helsta dýrgrip kirkjunnar, olíumálverkinu The Beheading of St John the Baptist eftir meistarann Caravaggio sem er talið hans besta verk og eitt það mikilvægasta í vestrænni listasögu. Caravaggio var í kjölfarið gerður að meðlimi reglunnar en örfáum mánuðum seinna var hann rekinn með skömm úr reglunni þar sem hann hafði gerst brotlegur við lög og átti sá brottrekstur sér stað í fjarveru hans fyrir framan málverkið sem hann hafði skapað fyrir regluna. Við endum heimsókn okkar á safni kirkjunnar þar sem okkur gefst kostur á að skoða silfurbúnað, skreytt ofin veggtjöld og aðrar gersemar.

Við heimsækjum einnig Masters höllina, St. George torgið og verðum vitni að því þegar skotið er af fallbyssum áður en við endum daginn á hótelinu okkar.

Við gistum á Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 4 | 10. Október
Áfangastaðir: Mdina, Malta - Rabat, Malta

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Mdina, sem gengur undir nafninu The Silent City, situr efst á hæð með útsýni yfir marga af bæjunum umhverfis hana. Þessi borg er óvenjuleg blanda af miðaldar borgarvirki og barokk-byggingarlist.

Forðum daga bjuggu þar aðallega fjölskyldur af aðalsættum og mörg heimilin hér hafa erfst í margar kynslóðir og er búseta í þeim enn tengd við auðæfi. Þessi híbýli eru jafnan gríðarstór að innan en lítilfjörlegir inngangar blekkja augað áður en inn er komið. Gælunafnið fékk borgin sökum hljóðlátra stræta hennar og strangra laga um notkun bifreiða, þessi fjarvera vélarhljóða getur jafnvel gert gestum kleift að ímynda sér að þeir hafi ferðast aftur í tíma.

Inngangurinn að borginni heitir Mdina Gate eða Vilhena Gate. Hliðið var hannað í barokk stíl af hinum franska arkítekt og hernaðarverkfræðing Charles François de Mondion sem tilheyrði reglu Mölturiddaranna. Nafn hliðsins var valið til heiðurs stórmeistara reglunnar, António Manoel de Vilhena.

Við munum ganga um stórmerkileg stræti sem hafa lítið breyst síðan á miðöldum, umkringd virkisveggjum og fornum byggingum. Það er einstök upplifun að rölta um borgina og sjá það sem fyrir augu ber eins og Siculo-Norman höllina og svipaðar byggingar í barokk-stíl sem hafa mikið sögulegt gildi - auk hinnar fjölbreyttu flóru annarra byggingarstíla. Þessi hrífandi miðaldablær er ástæða þess að borgin er sannkölluð paradís fyrir kvikmyndagerð.

Við komum til með að heimsækja St. Paul’s Cathedral, þessi kirkja var hönnuð af Lorenzo Cafa og er hún sérlega tilkomumikil. Hún er mest áberandi byggingin í miðri Mdina þrátt fyrir að vera umkringd fleiri glæsilegum byggingum. Okkar næsti áfangastaður er hinn aðliggjandi bær Rabat þar sem við skoðum St. Paul’s Catacombs. Katakombur eða grafhýsi af þessum toga í Mdina þróuðust út frá einföldum gröfum sem voru höggnar í bergið á öldunum fyrir upphaf núverandi tímatals.

Að loknum frjálsum tíma í hádeginu heimsækjum við San Anton grasagarðinn skammt frá forsetahöllinni sem við getum séð frá garðinum auk handverskþorpsins í Ta Qali.

Við endum daginn á hótelinu okkar, Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 5 | 11. Október
Áfangastaðir: “Systur-eyjan” Gozo

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Gozo, sem þýðir “gleði”, er töfrandi eyja skammt frá Möltu og munum við sigla til hennar með ferju. Aðkoman er hin glæsilegasta, þegar við siglum inn hafnarmynnið tekur á móti okkur friðsæl höfnin og snotur kirkja sem trónir yfir henni.

Eyjan er um 67 km² að stærð og þar búa rétt um ~31.000 manns. Gozo er þekkt fyrir afslappað andrúmsloft og margir heimamenn lýsa henni á þann veg að hún sé eins og Malta var á árum áður. Ríkisstjórn Möltu hefur hrundið af stað verkefni með það markmið að varðveita serstöðu eyjunnar hvað varðar náttúruvernd og varðveislu bygginganna þar.

Sjarmi eyjunnar er margþættur - gróskumikið landslagið teygir sig um eyjuna alla og bæði landbúnaður og fiskveiðar spila stórt hlutverk í daglegu lífi eyjaskeggja. Saga eyjunnar er hluta til goðsagnakennd, talið er að eyjan gæti verið hin dularfulla en friðsæla Calypso úr Ódysseifskviðu Hómers.

Meðal þess sem við sjáum og upplifum í þessari skoðunarferð verða Ta' Pinu National Shrine eða Church of Miracles, Dwejra sjávarlón á meginlandi eyjunnar sem tengist við sjóinn í gegnum rifu í berginu, Xlendi strandþorpið og Capital City of Citadella þar sem við stöldrum við og borðum hádegisverð.

Flestir sem heimsækja Gozo vilja meina að tíminn líði hægar þar en annarsstaðar í heiminum. Við látum reyna á það í þessari dagsferð okkar áður en við höldum aftur til hótelsins okkar á Möltu.

Við gistum á Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 6 | 12. Október
Áfangastaðir: Valletta, Malta

Frjáls dagur.

Við gistum á Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 7 | 13. Október
Áfangastaðir: Siġġiewi, Malta - Ħaġar Qim, Malta - Marsaxlokk, Malta

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Í dag skoðum við eina af elstu námum landsins sem í dag er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Hún er kalksteinsnáma sem er staðsett í gömlum bæ sem heitir Siġġiewi. Maltverjar eru þekktir fyrir hæfni sína þegar kemur að byggingu kalksteinshúsa og gerð listaverka úr þessu steinefni - hér býðst okkur að sjá listamann vinna úr kalkstein. Þessi staður hefur fengið verðlaun fyrir að bera af sem ferðamannastaður og fáum við tækifæri til að sjá fjöldann allan af dýrum sem bændur halda á eyjunni.

Næst höldum við til Ħaġar Qim sem er yfir 5000 ára gömul musterissamsæða. Þetta eru taldar vera einar elstu byggingar sem hafa fundist á jörðinni. Talið er að musterið hafi verið notað undir bænahald, þar hafa einnig fundist styttur sem eru taldar tengjast frjósemi og sumar þeirra eru varðveittar á Þjóðminjasafni Möltu. Um er að ræða einstakt meistarastykki arkitektúrs að mati stjórnar World Heritage Sites. Ħaġar Qim var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1992.

Við endum skoðunarferð dagsins með heimsókn til sjávarþorpsins Marsaxlokk sem liggur við flóa sem deilir sama nafni og er annað stærsta náttúrulega hafnarmynni Möltu. Þetta er besti staðurinn til að sjá hina litríku Luzzu fiskveiðibáta með máluðum augum en hefðin er talin koma frá Föníkumönnum til forna. Þorpið er þungamiðja fiskveiða á eyjunni og á Sunnudögum er haldinn útimarkaður þar sem hægt er að sjá allskonar tegundir af fiski og fá skemmtilega innsýn í menningu heimamanna. Þorpið er þekkt fyrir spennandi veitingastaði sem sérhæfa sig í sjávarréttum, nafn þess er samsetning af arabíska orðinu marsa sem þýðir höfn og maltneska orðinu Xlokk sem vísar í miðjarðarhafsvindinn.

Við endum daginn á hótelinu okkar á Möltu, Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 8 | 14. Október
Áfangastaðir: Valletta, Malta | Dingli, Malta | Għar Dalam, Malta | Blue Grotto, Malta

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en við förum í heimsókn til Mosta Dome. Þessi glæsilega kirkja geymir mikinn fjölda málverka eftir Giuseppe Cali og aðra hæfileikaríkra málara. Þegar kirkjan er heimsótt er tilvalið að ganga inn í sjálfan helgidóminn og skoða hinn mikla fjölda af munum sem eru til sýnis þar, þar á meðal fyrrnefnd málverk og líkan af kirkjunni auk eftirgerðar af sprengju sem fór í gegnum þakið og gróf sig í kirkjugólfið án þess að springa.

Við höldum áfram til þorpsins Dingli og stöldrum við hjá Dingli Cliffs þar sem okkur gefst kostur á að taka ljósmyndir áður en við förum til Għar Dalam þar sem fornleifafræðingar hafa fundið merki um að Malta hafi eitt sinn tengst með landbrú við meginland Evrópu. Þar er að sjá ævaforn dýrabein til sýnis í Joseph Baldacchino’s Hall frá dýrum sem hafa ekki lifað á Möltu í fleiri þúsund ár. Í hellinum sjálfum eru enn fleiri bein dýra frá seinustu ísöld sýnileg.

Við endum daginn á hádegisverði í þorpinu Wied iz-Zurrieq og bátsferð um Blue Grotto sem er samansafn sjávarhella þar sem sjórinn er kristaltær og umhverfið vægast sagt einstakt. 

Við endum daginn aftur á hótelinu okkar, Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 9 | 15. Október
Áfangastaðir: Valletta, Malta

Frjáls dagur.

Við gistum á Dolmen Hotel Malta eða sambærilegu hóteli.

Dagur 10 | 16. Október
Áfangastaðir: Pozzallo, Sikiley | Scicli, Sikiley | Marina di Ragusa, Sikiley

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en við förum með bát yfir til bæjarins Pozzallo á Sikiley sem er stærsta eyjan í Miðjarðarhafinu. Sérlega rík af sögu og menningu, meðal annars frá tímum Grikkja og Rómverja, auk þess að vera gædd einstakri náttúrufegurð, fjöllum, skógum, ám og dölum. Hér heimsækjum við borgina Scicli sem rithöfundurinn Elio Vittorini sagði líkast til vera fallegastu borg heimsins í bók sinni Le città del mondo - borgir heimsins. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO og miðbærinn telst eitt tilkomumesta dæmið um sköpunargáfu barokk-tímabilsins, sem tók við í kjölfar jarðskjálfta sem átti sér stað árið 1693 og jafnaði borgina við jörðu.

Acacia Marina hótelið í bænum Marina di Ragusa verður dvalarstaður okkar þessa nóttina, aðeins steinsnar frá fallegri strönd og lifandi strandgötu auk þess að vera einungis 10 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum. Þorpið státar af nokkrum ströndum sem flokkast “Blue Flag”-vottaðar, sem er mælikvarði á gæði vatns, öryggi og umsýslu.

Staðsetning þorpsins er tilvalin fyrir þá sem vilja upplifa bæði sögu eyjunnar og njóta þess að geta slappað af á fallegu ströndunum. Við endum daginn með kvöldverði á hótelinu okkar, Acacia Marina eða sambærilegu hóteli.

Dagur 11 | 17. Október
Áfangastaðir: Ragusa Ibla, Sikiley | Modica, Sikiley

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Í skoðunarferð dagsins ætlum við að skoða bæina Ragusa og Modica. Við byrjum í Ragusa sem var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 2002 og þykir einn merkasti bær Ítalíu vegna fjölbreytni fornminjanna og listaverkanna sem þar eru. Uppbyggingin sem átti sér stað í kjölfar jarðskjálftans 1693 var í höndum margra hæfileikaríkra arkitekta og listamanna eins og Vaccarini, Palma, Ittar, Sinatra og þá helst ariktektsins fræga Rosario Gagliardi. Þessir einstaklingar í samvinnu við höggmyndalistamenn og steinsmiði sköpuðu saman hið óviðjafnanlega svæði Val di Noto sem þekur þriðjung eyjunnar.

Bærinn er skreyttur ótrúlegu magni af listaverkum og arkitektúr-undrum eins og kirkjunni Duomo di San Giorgio sem þykir bera af. Uppbyggingin í kjölfar jarðskjálftans skipti bænum í tvo hluta; Ragusa Superiore sem er nútímalegri og síðan Ragusa Ibla sem var endurbyggður samkvæmt skipulagi bæjarins frá miðöldum.

Bærinn Modica í Val di Noto var einnig settur á heimsminjaskrá UNESCO 2002 og á uppruna sinn í nýsteinöldinni. Í dag er bærinn meðal annars þekktur fyrir framleiðslu sína á súkkulaði, sem er sérstakt vegna þess hvernig það er unnið. Líkt og Ragusa þá kom þessi bær illa út úr fyrrnefndum jarðskjálfta og skiptist í tvo hluta, Modica Alta og Modica Bassa. Bærinn og landið í kringum hann er hlaðið fallegum byggingum og friðsælli náttúru ólíkt því sem við þekkjum að heiman - Carob tré, ólívutré, perur og fleira okkur framandi. í heimsókn okkar til Modica fáum við einstaka upplifun þegar við skoðum Chiesa di Santa Maria del Gesù kirkjuna og klaustrið sem við fáum að heimsækja til viðbótar við Duomo di San Giorgio kirkjuna og súkkulaðibúðirnar í miðbænum.

Við gistum á Acacia Marina eða sambærilegu hóteli.

Dagur 12 | 18. Október
Áfangastaðir: Syracuse, Sikiley | Noto, Sikiley

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Að honum loknum munum við kynnast töfrum og leyndardómum borgarinnar Syracuse og Ortygia eyjunum auk borgarinnar Noto. Við byrjum á Neapolis fornleifasvæðinu og því sem þar leynist - Greek Theatre, Roman Amphitheatre og Paradise Quarry. Næst höldum við til eyjunnar Ortigia þar sem við munum meðal annars heimsækja og sjá Aretusa brunninn, hina ótrúlegu Duomo di Siracusa kirkju sem var byggð á leifum grísks hofs og í lokin Apollo hofið. Fyrir matgæðingana er sérstaklega spennandi heimsókn á matarmarkað borgarinnar hluti af dagsplaninu og fyrir þá sem það vilja býðst að skrá sig í bátsferð um eyjarnar.

Næst höldum við til borgarinnar Noto, sem var lögð í eyði af jarðskjálftanum 1693. Noto liggur í hæðum Meti sunnan við Hyblaean fjöllin. Saga borgarinnar, arkitektúrs hennar og uppbyggingarinnar í kjölfar skjálftans er nátengd sköpunargáfu þriggja arkitekta sem fóru fyrir endurreisn hennar - Rosario Gagliardi, Vincenzo Sinatra og Paolo Labisi. Þeim tókst að hanna einstaklega samhæfða einingu sem í dag er borgin Noto og ber hún merki þeirra umfram hinn klassíska barokk-stíl þeirra tíma. Sjón er sögu ríkari líkt og við upplifum í þessari skoðunarferð.

Við gistum á Acacia Marina eða sambærilegu hóteli.

Dagur 13 | 19. Október
Áfangastaðir: Sikiley

Frjáls dagur.

Við gistum á Acacia Marina eða sambærilegu hóteli.

Dagur 14 | 20. Október

Áfangastaðir: Catania, Sikiley | Taormina, Sikiley | Castelmola, Sikiley

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en við förum í skoðunarferð um Catania á Piazza del Duomo torginu eða Cathedral Square sem er eitt þekktasta kennileiti borgarinnar með mörgum tilkomumiklum byggingum. Torgið var reist í kringum árið 1700 á leifum eldra miðaldartorgs og er enn í dag vinsæll samkomustaður bæði heimamanna og ferðamanna. Við höldum áfram að næsta áfangastað sem er Catania Cathedral dómkirkjan byggð seinni hluta 11. aldar og er tileinkuð verndara borgarinnar - St. Agatha. Í gegnum aldirnar hefur hún verið skreytt með allskonar munum og breytingum að utan frá mismunandi menningarheimum.

La Elephant Fountain brunnurinn er á miðju torginu, einnig þekktur af heimamönnum sem Liotru, er tákt borgarinnar. Hann var hannaður af arkitektinum Giovanni Battista Vaccarini snemma á 18. öld og fyrir ofan brunninn stendur stytta af fíl úr hrauni sem vísar í átt að dómkirkjunni.

Skoðunarferðin endar nærri Catania fiskmarkaðinum sem er staðsetning flestra elstu veitingastaða borgarinnar. Við stefnum á að enda í borginni Taormina um fjögur-leytið þar sem við skráum okkur inn á hótelið okkar.

Eftir að við höfum skráð okkur inn á hótelið okkar förum við og heimsækjum gríska leikhúsið eða The Greek Theatre var upphaflega reist fyrir leiksýningar og song en á tímum Rómverja breyttist notagildið og gerðar voru breytingar á því svo hægt væri að halda bardaga milli skylmingarþræla. Frá Piazza IX Aprile getum við notið útsýnis yfir fjallið Etna, rekist á spennandi verslanir, bari og veitingastaði á Corso Umberto, lært um arfleifð forn-Grikkja, séð Santa Caterina kirkjuna og fleira.

Við skoðum okkur um í miðaldabænum Castelmola fyrir ofan Taormina, njótum útsýnisins og kynnum okkur sögulegan miðbæinn og leifarnar af kastala frá 9. öld sem var upphaflega byggður til varnar gegn herjum stórvelda Arabaríkja.

Í lok heimsóknarinnar fáum við tækifæri til að skoða okkur um og heimsækja fyrrnefndar búðir, bari og veitingastaði svæðisins og njótum þess að hafa frjálsan tíma fram að kvöldverði.

Við gistum á Unahotels Naxos Beach Sicilia eða sambærilegu hóteli.

Dagur 15 | 21. Október
Áfangastaðir: Mt. Etna, Sikiley

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Fjallið Etna á heimsminjaskrá UNESCO, einnig kallað Mongibello, er eitt mest vaktaða eldfjall heims og við ætlum að heimsækja það þennan dag. Fyrstu þekktu eldgos fjallsins eru tímasett fyrir um það bil 570,000 árum síðan og fjallið tekið miklum breytingum á þeim tíma. Fjallið og fjallshlíðarnar eru vinsælir áfangastaðir fyrir göngufólk og náttúruunnendur og margir göngustígar liggja um svæðið. Skóglendi, gróðursælir aldingarðar, stórbrotið útsýni yfir aldagamalt hraun, hella og gufa sem rís frá berginu koma saman og mynda óvenjulegt en hrífandi náttúrufyrirbrigði. Við munum skoða Silvestri gígana og ganga hlíðarnar og síðan frjáls tími í hádeginu áður en við förum í vínsmökkun í Etna Winery. Þeim sem vilja býðst að fara upp á toppinn að því gefnu að veður og aðstæður leyfi.

Við gistum á Unahotels Naxos Beach Sicilia eða sambærilegu hóteli.

Dagur 16 | 22. Október
Áfangastaðir: Taormina, Sikiley | Riga, Lettlandi

Við byrjum daginn á morgunverði á hótelinu. Frjáls tími til að versla í Taormina Centre [Corso Umberto]. Corso Umberto er mikilvægasta gatan í Taormina og var nefnd í höfuðið á Umberto I, konungi Ítalíu milli 1878 og 1900. Gatan var órjúfanlegur hluti af hinum forna Via Valeria vegi sem eitt sinn tengdi saman Messina og Catania. Via Valeria hefur tekið miklum breytingum í aldanna rás og byggingar breyst, sem dæmi má nefna hof Jupiter Serapis sem varð kirkja St. Pancrazio. Corso Umberto hefur byggingar og fornminjar í allskonar stílbrigðum, allt frá áhrifum Araba og Normanna til Barokk og Gotnesks.

Við skráum okkur út af hótelinu klukkan 12:00 og geymum farangur okkar þar til klukkan 14:00 þegar við erum sótt og flutt frá Taormina til Catania flugvallarins. Við eigum flug klukkan 17:40 að staðartíma þaðan til Riga í Lettlandi og lendum þar klukkan 22:00 að staðartíma.

Við gistum á Tallink Hotel Riga.

Dagur 17 | 23. Október
Áfangastaðir: Keflavík, Ísland

Við eigum flug frá Riga klukkan 07:05 að staðartíma og áætluð lending heima á Íslandi er klukkan 08:05 að staðartíma.