Ferðaáætlun

Dagur 1 - 20. September
Áfangastaðir: Aþena, Grikkland

Ferðin hefst á flugi til Aþenu í Grikklandi klukkan 06:00 og lendum þar klukkan 12:45 að staðartíma. Næst förum við frá flugvelli til hótels, frjáls tími eftir það þar til við borðum saman kvöldverð á veitingastað í borginni. Við gistum á The Stanley Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 2 - 21. September
Áfangastaðir: Aþena, Grikkland

Dagurinn hefst á morgunverði á hótelinu. Að honum loknum förum við í skoðunarferð um borgina og skoðum meðal annars Syntagma Square auk fleiri vinsælla staða eins og National Gardens, Hadrian’s Arch, St. Paul’s Church, Parliament, Tomb of the Unknown Soldier, Catholic Cathedral og Schliemann's Mansion [Numismatic Museum].

Næst keyrum við leið sem er þekkt sem The Athenian Trilogy og samanstendur hún af University of Athens, Academy of Athens og National Library. Það er mjög áhugavert að sjá þessar sögufrægu byggingar og innlendi fararstjórinn kynnir þær fyrir okkur í samhengi við forna tíma og hvaða hlutverki þær þjóna í nútímanum. Við munum staldra við og taka myndir við Panathenaic Stadium þar sem fyrstu Ólympíuleikarnir, í þeirri mynd sem við þekkjum, voru haldnir árið 1896.

Í framhaldi af því setjum við stefnuna á Zappeion Hall og rústir Olympieion, hof Seifs. Meðal okkar seinustu áfangastaða þennan dag eru Acropolis of Athens borgarvirkið sem gnæfir yfir borgina en það er á heimsminjaskrá UNESCO, þar heimsækjum við einnig Temple of Athena Nike, Parthenon og Erechtheion hofin. Að endingu göngum við framhjá Herodion og Dionysus leikhúsunum og heimsækjum New Acropolis Museum áður en við borðum saman hádegisverð.

Frjáls tími það sem eftir lifir dags þar til við borðum saman kvöldverð. Við gistum á The Stanley Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 3 - 22. September
Áfangastaðir: Corinth Canal, Grikkland | Nemea, Grikkland | Mycenae, Grikkland | Epidaurus, Grikkland | Nafplio, Grikkland

Dagurinn hefst á morgunverði á hótelinu áður en við leggjum af stað í ævintýralega skoðunarferð meðfram ströndinni. Okkar fyrsti áfangastaður er hið svonefnda Corinth Canal sem er í um 77 kílómetra fjarlægð frá Aþenu. Eftir að við höfum virt fyrir okkur þennan tilkomumikla skipaskurð keyrum við til hinnar fornu borgar, Nemea, sem er kannski hvað þekktust fyrir að hafa verið heimkynni Nemea ljónsins sem gríska hetjan Herkúles lagði að velli. Hér eigum við notalega stund saman í vínsmökkun áður en lengra er haldið.

Frá Nemea höldum við til rústa borgarinnar Mycenae, önnur gersemi á heimsminjaskrá UNESCO. Þessar rústir er að finna í héraðinu Argolis. Borgin spilaði veigamikið hlutverk í sögu forn-Grikkja og stjórnaði lengi vel stóru svæði landsins í suðri. Hér munum við skoða Cyclopean Walls, hið fræga Lion’s Gate, Royal Tombs og hina stórfenglegu byggingu Treasury of Atreus, einnig þekkt sem Tomb of Agamemnon sem var reist um ~1300 fyrir Krist. Við endum heimsókn okkar til Mycenae á gómsætum hádegisverði.

Eftir hádegisverðinn setjum við stefnuna á hina fornu borg Epidaurus sem geymir einn mesta menningarfjársjóð þjóðarinnar, eitt best varðveitta leikhús forn-Grikkja. Enn þann dag í dag er hljómburður leikhússins nánast án jafningja. Eftir að við höfum kynnt okkur sögu borgarinnar og heimsótt hið forna leikhús höldum við til strandborgarinnar Nafplio.

Nafplio var fyrsta höfuðborg Grikklands nútímans þar til árið 1834 þegar að Aþena varð höfuðborg landsins. Hér munum við meðal annars heimsækja Palamidi virkið og Bourtzi kastalann sem voru reist af Feneyingum þegar þeir hernámu svæðið.

Við borðum saman kvöldverð á einni af hinum fjölmörgu og heillandi knæpum borgarinnar og kynnumst þjóðlegri matargerð. Við gistum á Amalia Hotel Nafplio eða sambærilegu.

 

Dagur 4 - 23. September
Áfangastaðir: Nafplio, Grikkland | Nafpaktos, Grikkland | Arachova, Grikkland

Við hefjum daginn á morgunverði á hótelinu áður en við förum saman í stutta skoðunarferð um Nafplio. Að henni lokinni keyrum við til bæjarins Nafpaktos sem er vel þekktur fyrir meðal annars höfn sem byggð var af Feneyingum og hina stórskemmtilegu litadýrð sem einkennir bátana sem þar eru. Við hönina er einnig að finna styttu af rithöfundinum Miguel de Cervantes sem skrifaði ævintýrið um Don Quixote en ástæða þess að styttuna má finna í grískum smábæ er þáttaka hans og hetjuleg framganga í frægum sjóbardaga sem átti sér stað hér árið 1571. Við endum heimsókn okkar til Nafpaktos á hádegisverði að hætti heimamanna.

Næsti áfangastaður er bærinn Arachova og keyrum við í gegnum fallegar sveitir Galaxidi og Itea á leið okkar þangað.

Við gistum á Domotel Anemolia eða sambærilegu.

 

Dagur 5 - 24. September
Áfangastaðir: Arachova, Grikkland | Delphi, Grikkland | Lamia, Grikkland | Kalabaka, Grikkland

Eftir morgunverð á hótelinu heimsækjum við fornleifasvæði Delphi og skoðum hinar ævafornu rústir sem þar eru. Delphi spilaði veigamikið hlutverk í sögu forn-Grikkja og töldu margir þennan heilaga stað vera miðpunkt alheimsins. Við munum fara í skoðunarferð um musteri guðsins Apollo sem var meðal annars gætt af véfréttinni Pythia en því var trúað að hún gæti miðlað spám og visku frá sjálfum Apollo.

Við borðum saman hádegisverð áður en við keyrum til bæjarins Kalabaka, snotur smábær sem stendur við rætur mikilla bjarga en á tindi þeirra standa nokkur klaustur sem heita saman Meteora Monasteries. Á leið okkar þangað keyrum við í gegnum borgina Lamia með stuttu stoppi þar og borgina Trikala. Í Kalabaka gefst tækifæri til að finna skemmtilega og heillandi minjagripi til að taka með sér heim.

Við gistum á Hotel Famissi Eden eða sambærilegu.

 

Dagur 6 - 25. September
Áfangastaðir: Kalabaka, Grikkland | Meteora, Grikkland | Thermopylae, Grikkland | Athens, Grikkland

Að loknum morgunverði á hótelinu er stefnan sett á að skoða tvo klaustur frá tímum Austrómverska keisaraveldisins sem eru hluti af fyrrnefndum Meteora Monasteries. Klaustrin eru á heimsminjaskrá UNESCO og útsýnið frá tindi bjargsins vægast sagt stórfenglegt. Meteora svæðið þar sem þessi klaustur standa er eitt það tilkomumesta í öllu Grikklandi og þó víðar væri leitað. Eftir skoðunarferð morgunsins brjótum við upp daginn með notalegri stund á veitingastað þar sem við snæðum saman hádegisverð.

Á leið okkar til baka frá því að skoða þessi klaustur býðst tæifæri til að heimsækja verksmiðju sem sérhæfir sig í gerð táknmynda eða íkona í stíl Austrómverska keisaraveldisins, ein fjölmargra tenginga svæðisins við menningararf sinn.

Seinnipartinn höldum við síðan af stað til Aþenu. Við komum til með að stoppa í bænum Thermopylae til að votta styttu af hinum sögufræga konungi Spartverja, Leonidas, virðingu okkar og gefa okkur smá stund í að taka myndir af því sem fyrir augu ber.

Við gistum á The Stanley Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 7 - 26. September
Áfangastaðir: Aþena, Grikkland

Þennan dag eigum við frjálsan tíma í höfuðborginni til að slaka á, fara að versla eða kynnast borginni.

Við gistum á The Stanley Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 8 - 27. September
Áfangastaðir: Aþena, Grikkland | Piraeus, Grikkland | Naxos, Grikkland | Agios Prokopios, Grikkland

Við hefjum daginn á stuttri siglingu frá hafnarborginni Piraeus til eyjunnar Naxos. Þegar við lendum á eyjunni tekur við spennandi skoðunarferð með heimamanni sem sýnir okkur alla þekktustu og mest spennandi áfangastaði sem Naxos hefur að geyma. Við munum meðal annars heimsækja kastala eyjunnar, Partara musterið og njóta ostasmökkunar.

Að lokinni dagskrá morgunsins höldum við á hótelið okkar á Naxos í bænum Agios Prokopios sem er þekktur fyrir góða gististaði, framúrskarandi veitingastaði og spennandi mannlíf.

Hér gefst okkur tækifæri til að slaka á við hina gullfallegu Agios Prokopios strönd sem liggur við túrkís-litaðan sjóinn. Náttúrufegurð strandarinnar og nærliggjandi umhverfis er slík að ströndin er önnur tveggja vinsælusta sólarstranda Naxos.

Við gistum á Lagos Mare Boutique Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 9 - 28. September
Áfangastaðir: Agios Prokopios, Grikkland | Chalkio, Grikkland | Filoti, Grikkland | Apeiranthos, Grikkland | Eggares, Grikkland

Eftir morgunverð á hótelinu tekur við skoðunarferð um Naxos, okkar fyrsti áfangastaður dagsins er Demeter hofið sem er skammt frá þorpinu Sangri. Hofið stendur sem vitnisburður um framúrskarandi hæfni þeirra sem byggðu það eingöngu úr marmara frá Naxos um ~500 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Eftir að hafa kynnt okkur hofið og sögu þess förum við til þorpsins Chalkio og fáum að smakka Kitron, sítrónulíkjör sem er framleiddur á Naxos. Næst heimsækjum við stærsta þorp eyjunnar sem heitir Filoti og njótum hins magnaða útsýnis sem það býður upp á frá rótum fjallsins Zas þar sem þorpið er staðsett.

Við heimsækjum einnig þorpið Apeiranthos þar sem við munum meðal annars heimsækja víðfrægar námur eyjunnar þar sem grafið er eftir corundite steini auk þess að sjá Apollonas Kouros styttuna, rúmlega 10 metra há stytta. Kouros styttur voru yfirleitt styttur af ungum mönnum og taldar standa fyrir æsku, guðdómleika eða jafnvel sem líkneski fórnar.

Dagskrá dagsins lýkur með heimsókn á ólífuolíu-safn í þorpinu Eggares, hér fáum við innsýn í hvernig framleiðsla á olíunni hefur haft gríðarleg áhrif á menningarsögu eyjunnar. Eftir þessa heimsókn gefst frjáls tími þar til við förum saman á veitingastað við ströndina og njótum ljúffengra rétta að hætti heimamanna í afslöppuðu umhverfi.

Við gistum á Lagos Mare Boutique Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 10 - 29. September
Áfangastaðir: Naxos, Grikkland

Eftir morgunverð á hótelinu gefst frjáls tími, hægt er að liggja við ströndina, ganga um og skoða fallegt umhverfið eða fara í spennandi skoðunarferðir.

Við mælum með heimsókn til Koufonisia eyjanna þar sem hægt er að eiga notalega stund í sannkallaðri náttúruparadís. Þessi ferð hefst á rólegri tveggja tíma siglingu til Pano Koufonisi sem er minnsta en þéttbýlasta eyjan í eyjaklasanum. Bílar eru ekki leyfðir á eyjunni en það er lítið mál að ferðast um eyjuna fótgangandi, á reiðhjóli eða jafnvel á smábátum. Í Chora þorpinu er margt fallegt að sjá, þar á meðal fjölbreytt framboð af handverki sem heimamenn búa til. Gott úrval af búðum, kaffihúsum, veitingastöðum og börum er til staðar á eyjunni og tilvalið að setjast niður og njóta kyrrðarinnar. Hér er hægt að setjast á veitingastað við ströndina og njóta kvöldverðar áður en siglt er aftur til Naxos.

Við gistum á Lagos Mare Boutique Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 11 - 30. September
Áfangastaðir: Naxos, Grikkland | Athens, Grikkland

Morgunverður á hóteli áður en við siglum til Piraeus með ferju. Við lendum í Piraeus seinnipart dags og förum þaðan á hótel í Aþenu þar sem við borðum saman kvöldverð.

Við gistum á The Port Square Hotel eða sambærilegu.

 

Dagur 12 - 1. Október
Áfangastaðir: Keflavík, Ísland

Flugið okkar frá Aþenu er klukkan 10:00 og við lendum heima á Íslandi klukkan að 13:20 að staðartíma.