Ferðaáætlun

Dagur 1
Áfangastaðir: Riga, Lettland - Tbilisi, Georgía
Við fljúgum til Riga í Lettlandi klukkan 12:25 og lendum þar klukkan 19:05 að staðartíma. Áframhaldandi flug til Tbilisi í Georgíu frá Riga er síðan klukkan 23:20 að staðartíma og áætluð lending þar klukkan 04:40 að staðartíma um nóttina þann 3. Júní. Frá flugvellinum förum við á hótel.

Dagur 2
Áfangastaðir: Tbilisi, Georgía – Mtskheta, Georgía – Gudauri, Georgía
Við hefjum daginn á skoðunarferð um Tbilisi, höfuðborg Georgíu. Skoðunarferðin byrjar í Metekhi hverfinu sem er elsti hluti borgarinnar. Næst förum við upp með kláf til Narikala virkisins frá fjórðu öld en frá því er stórbrotið útsýni yfir borgina og Mtkvari ána auk þess sem við stöldrum við Mother of Georgia minnismerkið. Síðan röltum við um gamla bæinn þar sem við munum meðal annars sjá Abanotubani súlfúrböðin, en undir þeim eru heitir hverir sem viðhalda hitanum. Samkvæmt þjóðsögunum á fálki Vakhtang Gorgasali, fyrrum konungs Íberíu, að hafa fallið þar til jarðar sem leiddi af sér uppgötvun fyrrnefndra hvera og stofnun borgarinnar. Við skoðum lystigarða Tbilisi og Anchiskhati Basilica of St. Mary sem er elsta kirkja borgarinnar, Gabriadze leikhúsið með sínum fallega turni, fyrrum þinghúsið og óperu- og ballethús borgarinnar svo eitthvað sé nefnt. Við borðum síðan hádegisverð í Chardakhi þorpinu.

Að loknum hádegisverði heimsækjum við Jvari klaustrið sem byggt var á sjöttu öld og er á heimsminjaskrá UNESCO. Okkar næsti áfangastaður er Svetitskhoveli Cathedral sem er önnur stærsta kirkja Georgíu og samkvæmt þjóðsögunni hafði íbúi frá Mtskheta verið viðstaddur krossfestingu Jesú og keypt serk hans af rómverskum hermanni í kjölfarið. Þegar hann kom með serkinn aftur í heimabyggð ákvað systir hans að snerta hann og lést samstundis. Ekki var hægt að losa serkinn úr höndum hennar og hún því grafin með honum og er sú gröf varðveitt í dómkirkjunni. 

Að kvöldmat loknum förum við til fjallaþorpsins Gudauri, sem er þekktasti og vinsælasti skíðastaður Georgíu.

Dagur 3
Áfangastaðir: Stepantsminda, Georgía - Zhinvali, Georgía - Tbilisi, Georgía
Dagurinn hefst faðmi Kákasus fjallanna þar sem við skoðum minnismerki frá 1983 sem var byggt til að fagna samvinnu Rússlands og Georgíu, undir merkjum Sóvetríkjanna. Að því loknu höldum við til fjallaþorpsins Stepantsminda sem hefur verið kallaður einn fallegasti smábær heimsins og þar njótum við óviðjafnanlegs útsýnis yfir Kákasusfjöllin. Gergeti Trinity Church er okkar næsta stopp sem hefur einmitt verið kölluð fallegasta kirkja í heimi og það af The Daily Telegraph. Í Stepantsminda munum við bæði fá kennslu og tækifæri til að taka þátt í gerð handverks úr ull - á gamla mátann. Að loknum hádegisverði förum við aftur til Tbilisi.
 
Á leið okkar til baka munum við koma við í Zhinvali þar sem við ætlum að heimsækja Ananuri kastalann og virki. Kastalinn hefur séð margar orustur en sú þekktasta var árið 1739 þegar að óvinveittur hertogi, Shanshe Ksani, réðist til atlögu og kveikti í honum eftir að hafa unnið bardagann. Dariali Father Monastery Complex er okkar næsta stopp sem er samansafn af nokkrum kirkjum og státar af glæsilegum vínkjallara.
 
Við gistum síðan í Tbilisi og borðum ljúffengan kvöldverð á einu þekktasta veitingahúsi borgarinnar, Mtsvadiauri.
 

Dagur 4
Áfangastaðir: Kakheti, Georgía - Telavi, Georgía - Tsinandali, Georgía - Kvareli, Georgía

Við byrjum á að fara til Kakheti héraðsins sem er eitt það áhugaverðasta í Georgíu en það býr yfir mikilli náttúrufegurð, mörgum klaustrum, góðum mat og ríkri sögu - hér eru yfir 5000 sögulegar byggingar og munir auk þekktustu víngerðar landsins. Næst förum við til Telavi bæjar við rætur Tsiv-Gombori fjallgarðsins í miðju Kakheti héraðs. Við borðum hádegismat í Telavi og förum síðan í vínsmökkun í Shumi víngerðina. Í bænum má finna 900 ára gömul tré sem eru eitt af þekktari einkennum bæjarins.
 
Okkar næsti áfangastaður er þorpið Tsinandali þar sem við skoðum Alexander Chavchavadze safnið en hann Alexander var georgískur aðalsmaður sem þjónaði í her rússneska keisaradæmisins sem hershöfðingi. Hann er talinn vera eitt af áhrifamestu skáldum Georgíu og hefur jafnan verið kallaður faðir rómantískrar ritstefnu í landinu. Hann var sá fyrsti til að hefja framleiðslu á víni í héraðinu auk þess sem hann safnaði fágætu víni og munum við fá að skoða vínkjallara safnsins. Safnið er í raun samansafn af húsum þar sem má finna víngerð, hótel, safn og kaffihús, allt umlukið glæsilegum garði.
 
Við förum næst til bæjarins Kvareli þar sem við skoðum Gremi, sem samanstendur af kastala sem var áður höfuðborg Kakheti konungsveldisins og glæsilegri kirkju sem var byggð af konungi Kakheti, Levan, árið 1565. Þessi kirkja heitir The Church of the Archangels og er eitt besta dæmi um georgískan arkitektúr frá miðöldum.
 
Við endum skoðunarferðina á stað sem heitir The Wine Yard # 1 og heimsækjum fjölskylduna sem rekur vínekruna, fáum að kynnast þeim og venjum og siðum heimamanna. Bæði kynnumst við brauð- og víngerð og snæðum síðan kvöldverð hjá fjölskyldunni.
 
Við gistum aftur í Tbilisi.

 

Dagur 5
Áfangastaðir: Sadakhlo, Georgía - Haghpat, Armenía - Fioletovo, Armenía - Dilijan, Armenía

Nú förum við til Armeníu þar sem okkar fyrsta stopp er Haghpat klaustrið sem var líklegast byggt árið 936 af Khosrovanuysh drottningu, eiginkonu Ashot III, konungi Armeníu á þeim tíma. Klaustrið er tilkomumikið og kemur því ekki á óvart að það sé á heimsminjaskrá UNESCO. Að loknum hádegisverði förum við til bæjarins Dilijan sem er staðsettur í Dilijan þjóðgarðinum og þekktur fyrir heilsulindir sínar og fagmannlegt handverk. Tilvalinn staður til að kaupa minjagrip!
 
Á leið okkar til Dilijan munum við stoppa í Fioletovo sem er þekkt Molokan þorp en Molokan er rússneskur minnihlutahópur sem býr í Armeníu. Við kíkjum í heimsókn til fjölskyldu sem býr í þorpinu og fáum þar að upplifa te partí og kynnast sögu þeirra og hefðum. 
 
Í Dilijan heimsækjum við aðra fjölskyldu, kynnumst þar Armensku bakkelsi, gata, og borðum hefðbundinn armenskan kvöldverð. Við gistum í Dilijan.

 

Dagur 6
Áfangastaðir: Sevan, Armenía - Selim Pass, Armenía - Zorats Karer, Armenía

Eftir morgunmat förum við meðfram Sevan vatni og áfram út Sevan-skaga þar til við komum að Sevanank klaustrinu þar sem við njótum dásamlegs útsýnis yfir vatnið og umhverfið í kring. Við snæðum hádegisverð með heimamönnum í heimahúsi en þar er starfræktur ostabúgarður og munum við fá kynningu á hvernig framleiðslan virkar. Eftir hádegið förum við um Selim Pass, þekktan áningarstað sem kaupmenn og ferðalangar nýttu sér á öldum áður á ferð sinni um Silkiveginn.

Við komum einnig til með að skoða Zorats Karer, sem er samansafn af 223 steinum og stóru grjóti sem hefur verið raðað upp en talið er að þeir séu um 3,500 árum eldri heldur en hið svipaða Stonehenge í Englandi og um 3,000 árum eldri en pýramídarnir í Egyptalandi.

Við endum daginn í einum elsta bæ Armeníu, Goris, þar sem við borðum kvöldmat og gistum.

 

Dagur 7
Áfangastaðir: Goris, Armenía - Khndzoresk, Armenía - Tatev, Armenía

Við hefjum daginn á stuttri skoðunarferð um Goris. Að henni lokinni höldum við til hins spennandi þorps, Khndzoresk, sem er þekktast fyrir hýbýli sem hafa verið skorin í stórgrýti sem finna má um allt svæðið. Hér göngum við yfir hengibrú sem tengir saman forna hluta þorpsins við þann nýja. 
 
Við förum svo og skoðum Tatev klaustrið sem stendur við brún á djúpu gili þar sem áin Vorotan rennur og er útsýnið vægast sagt stórfenglegt. Samkvæmt Heimsmetabók Guinness er hér lengsta loftbrú eða kláfur (aerial tramway) í heimi sem tekur okkur til klaustursins sem var reist á 9. öld. Við borðum svo hádegisverð á veitingastað skammt frá klaustrinu.
 
Við förum aftur til Goris og fáum kennslu í gerð jingalov hats sem er dæmigerður réttur frá suðurhluta Armeníu. Gistum áfram í Goris.

 

Dagur 8
Áfangastaðir: Areni, Armenía - Noravank, Armenía - Yerevan, Armenía

Þorpið Areni í þekktasta vínhéraði Armeníu verður okkar fyrsti áfangastaður þennan daginn. Við munum kynnast hvernig vínframleiðslan fer fram og smakka vínin sem eru framleidd þar. Samkvæmt fornleifafræðingum sem hafa unnið á svæðinu er hér að finna elsta vínkjallara sem fundist hefur í heiminum en hann er talinn vera rúmlega 6,000 ára gamall og munum við heimsækja hann. Á göngu okkar munum við sjá Bezoar geitur, eina af dýrategundum Armeníu sem því miður eru í útrýmingarhættu.
 
Við munum síðan skoða Noravank klaustrið frá 13. öld sem var byggt í þröngu gili. Hér rennur Amaghu áin og við njótum þess að sjá fallegt samspil náttúru og manns áður en við borðum hádegismat á svæðinu. 
 
Að hádegisverði loknum förum við til höfuðborgar Armeníu, Yerevan, þar sem við njótum kvöldverðar með sýningu á þjóðdönsum. Við gistum í Yerevan.

 

Dagur 9
Áfangastaðir: Geghard, Armenía - Kákasusfjöll, Armenía - Yerevan, Armenía

Við hefjum daginn á að heimsækja Geghard klaustrið, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, skammt frá Yerevan. Það var reist á miðöldum og er að hluta til grafið inn í bergið sem klaustrið stendur við. Það er til þjóðsaga um lækningarmátt lindar sem finna má innan veggja klaustursins en hún heldur því fram að jafnvel einn sopi af vatni úr lindinni geti læknað alla sjúkdóma. 
 
Frá Geghard förum við til Garni Pagan hofsins frá 1. öld sem er eina síðgríska hofið í Kákasusfjöllunum sem stendur enn í dag. Arkitektúr hofsins er í anda Meyjarhofsins í Aþenu og er tilgangur hofsins enn óskýr, sagnfræðingar eru óvissir um hvort það hafi verið bænastaður eða mögulega grafhvelfing. Við borðum hádegisverð á svæðinu og fáum kennslu í bakstri á lavash brauði. 
 
Við endum daginn í Yerevan og gistum þar.

 

Dagur 10
Áfangastaðir: Yerevan, Armenía - Tbilisi, Georgía

Yerevan er áfangastaður dagsins - eftir morgunmat förum við í skoðunarferð um þessa glæsilegu borg og skoðum það allra helsta. Við munum skoða Republic Square og "steinteppið" sem liggur á því miðju. Það er í raun hellulagt listaverk en útliti þess er ætlað að líkja eftir hefðbundnu armensku teppi. Við munum einnig koma við í óperu- og ballethúsi borgarinnar. Við munum njóta útsýnis yfir alla borgina og Ararat fjall frá toppi Cascade minnismerkisins, við heimsækjum Cafesjian listasafnið sem geymir flóru armenskrar nútímalistar, Gumi Shuka sem er sölutorg þar sem má finna mikið af spennandi kræsingum og skoðum einnig Mother Armenia minnismerkið. Í heimsókn okkar til Yerevan Brandy Company fáum við síðan að smakka hið víðfræga armenska brandí eða koníak og komum svo við á Matenadaran sem er safn og geymslustaður fyrir meirihluta fornra armenskra handrita sem til eru. Safnið er svo vel þekkt að nafnið Matenadaran er jafnan notað um önnur söfn víðsvegar um heiminn sem geyma armensk handrit.
 
Við endum daginn á að keyra yfir landamærin til Georgíu þar sem við borðum kvöldmat og náum að hvílast aðeins á hótelinu áður en við höldum út á flugvöll.

 

Dagur 11
Áfangastaðir: Riga, Lettland - Keflavík, Ísland

Flugið okkar frá Tbilisi til Riga er klukkan 05:25 að staðartíma og við lendum klukkan 08:55 að staðartíma. Síðan fljúgum við til Íslands klukkan 10:45 að staðartíma og lendum heima klukkan 11:40 að staðartíma.