Ferðaáætlun

Dagur 1
Áfangastaðir: Riga, Lettland
Ferðin hefst á flugi með íslenska fararstjóranum okkar frá Keflavík kl. 12:25 til Riga í Lettlandi þar sem við lendum kl. 19:05 á staðartíma. Frá flugvellinum förum við á Tallink Hotel.

Dagur 2
Áfangastaðir: Dubrovnik, Króatía - Trebinje, Bosnía og Hersegóvina
Annar dagurinn hefst með flugi kl. 09:35 til Dubrovnik í Króatíu þar sem við lendum um 11:15. Innlendi fararstjórinn, sem er heimamaður, tekur á móti okkur þar. Við höldum þaðan til bæjarins Trebinje í Bosníu-Hersegóvinu þar sem við borðum kvöldmat og gistum á Grad Sunca.

Dagur 3
Áfangastaðir: Trebinje, Bosnía og Hersegóvina
Þennan daginn ætlum við að skoða hinn gullfallega bæ Trebinje. Saga bæjarins nær aftur til 10. aldar og er hann þekktur fyrir sögu sína og menningararfleifð. Við göngum um bæinn og fáum að kynnast því helsta sem hann hefur upp á að bjóða og skoðum miðaldarlegan arkitektúr. Við munum meðal annars skoða Tvrdoš klaustrið sem var reist á 15. öld og kynnast sögu þess. Klaustrið er í dag þekktast fyrir að framleiða vín úr Žilavka og Vranac þrúgunum sem vaxa á svæðinu sem okkur býðst að smakka. Við gistum áfram á Grad Sunca.

Dagur 4
Áfangastaðir: Trebinje, Bosnía og Hersegóvina - Dubrovnik, Króatía
Næsta borg sem við komum til með að skoða er Dubrovnik í Króatíu, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Uppruna borgarinnar má rekja aftur til 7. aldar. Hún er þekkt fyrir gamla bæinn sem er sérlega vel varðveittur og margt spennandi að sjá þar. Borgin spilaði stórt hlutverk í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones en hér voru myndaðir atburðir sem áttu sér stað í King's Landing. Við gistum áfram á Grad Sunca í Trebinje.

Dagur 5
Áfangastaðir: Sarajevo, Bosnía og Hersegóvina - Mostar, Bosnía og Hersegóvina
Næsti áfangastaður er Sarajevo, höfuðborg Bosníu og Hersegóvinu. Á leiðinni munum við skoða hinn 25m háa Kravica foss sem er talinn vera eitt fallegasta náttúrufyrirbrigði landsins en hann kemur úr Trebižat ánni. Við höldum áfram til borgarinnar Mostar sem er á heimsminjaskrá UNESCO en hún er þekktust fyrir að vera einstaklega vel varðveitt dæmi um tyrkneskan miðalda-arkitektúr. Við endum þennan dag í Sarajevo þar sem við gistum á Hotel Europe.

Dagur 6
Áfangastaðir: Sarajevo, Bosnía og Hersegóvina - Visoko, Bosnía og Hersegóvina

Dagurinn hefst á því að skoða Sarajevo og kynna okkur sögu hennar en búsetu á svæðinu má rekja til loka steinaldar, svo gömul er hún. Borginni var stýrt af nokkrum utanaðkomandi heimsveldum í gegnum aldirnar og því byggingarstíllinn ansi óvenjulegur, hér má meðal annars finna íslamskan miðaldararkitektúr sem og austurrískan. Borgin spilaði stórt hlutverk í sögu 20. aldar í Evrópu þegar erkihertoginn Franz Ferdinand var myrtur hér árið 1914.

Síðan munum við heimsækja Visoko dalinn og skoða þar hina bosnísku pýramída og spennandi neðanjarðargöng sem eru talin geyma jákvæða og endurnýjanlega orku sem hefur heilandi áhrif. Þessi göng eru mjög vinsæll áfangastaður vegna þessa áhrifa og hefur til dæmis tennisleikarinn Novak Djokovic komið þangað í þeim tilgangi. Við gistum aftur á Hotel Europe.

Dagur 7
Áfangastaðir: Višegrad, Bosnía og Hersegóvina - Bajina Bašta, Serbía
Frá Sarajevo förum við til Višegrad en þekktasta kennileiti bæjarins er Mehmed Paša Sokolović brúin frá 16. öld. Brúin var í aðalhlutverki í ritverki Ivo Andrić, The Bridge on the Drina. Við byrjum á að skoða bæinn og kynna okkur sögu hans, í kjölfarið förum við í siglingu um Drina ána og hið samnefnda gljúfur þar sem við njótum náttúrufegurðarinnar. Við endum siglinguna í bænum Bajina Bašta þar sem við gistum á Zepter Hotels Drina.

Dagur 8
Áfangastaðir: Mokra Gora - Mećavnik , Serbía - Bajina Bašta, Serbía

Dagurinn hefst á ferðalagi upp í Mokra Gora fjöllin með lest frá 19. öld sem ber nafnið Šargan. Tilkomumikið útsýni einkennir ferð okkar um fjöllin og munum við staldra við nokkrum sinnum á leiðinni til að taka ljósmyndir og njóta þess sem fyrir augu ber. Við heimsækjum einnig þorpiðDrvengrad á Mećavnik hæð þar sem allar byggingarnar eru úr timbri. Bærinn kemur til dæmis fyrir í kvikmynd Emir Kusturica, Life is a Miracle. Við endum síðan daginn á kvöldverði við bakka Drina árinnar og gistum áfram á Zepter Hotels Drina.

Dagur 9
Áfangastaðir: Bajina Bašta, Serbía - Podgorica, Svartfjallaland
Við byrjum daginn á að heimsækja Mileševa klaustrið sem hýsir marga mikilvægustu minjar menningararfleifðar landsins þar sem við skoðum klaustrið og listmunina sem þar eru geymdir. Ein frægasta freska þjóðarinnar er hér, The White Angel sem er frá 13. öld, auk fleiri gersema. Eftir að hafa skoðað okkur um borðum við hádegismat í bænum Kolašin í Svartfjallalandi áður höldum við til höfuðborgarinnar, Podgorica, þar sem við gistum á Cue Podgorica.

Dagur 10
Áfangastaðir: Podgorica, Svartfjallaland - Cetinje, Svartfjallaland - Kotor, Svartfjallaland
Við byrjum á að skoða höfuðborgina Podgorica. Líkt og margar aðrar borgir í þessum hluta Evrópu hefur hún tilheyrt bæði Ottoman keisaraveldinu og Austurríska-Ungverska keisaraveldinu sem skildu eftir sig óvenjulega blöndu af heillandi arkitektúr. Næsti áfangastaður er hin gullfallega borg Cetinje sem var höfuðborg landsins til ársins 1916 þegar að borgin Podgorica tók við því hlutverki. Hér heimsækjum við klaustur, listasafn og höll Nikola konungs.

Næst förum við til miðaldabæjarins Kotor sem liggur við Adríahaf og er á heimsminjaskrá UNESCO. Hér skoðum við okkur um áður en við endum daginn í bænum Budva, sem er fallegur strandbær með gömlum og snotrum húsum, pálmatrjám og mikilfenglegu útsýni út yfir flóann. Við gistum á Hotel Montenegro.

Dagur 11
Áfangastaðir: Herceg Novi, Svartfjallaland - Dubrovnik, Króatía - Riga, Lettland
Þennan dag höfum við frjálsan dag við ströndina í Budva og borðum saman kvöldverð þar. Gistum aftur á Hotel Montenegro.

Dagur 12
Áfangastaðir: Riga, Lettland
Dagurinn hefst snemma á rútuferð á flugvöllinn þaðan sem við fljúgum til Riga klukkan 11:55 og lendum klukkan 15:30. Riga er afskaplega falleg borg og margt spennandi að sjá hér, til dæmis eitt stærsta samansafn af Art Noveau og Jugend byggingalist. Gamli bærinn í Riga er á heimsminjaskrá UNESCO og auðvelt fyrir gangandi vegfarendur að komast leiðar sinnar þar. Hér eigum við frjálsan dag. Gistum á Tallink Hotel.

Dagur 13
Áfangastaðir: Keflavík, Ísland
Við fljúgum frá Riga klukkan 10:45 á staðartíma og áætluð lending í Keflavík er klukkan 11:40.