Ferðaáætlun

Dagur 1 | 4. Nóvember
Áfangastaðir: London, England - Colombo, Sri Lanka

Ferðin hefst á flugi til London Heathrow klukkan 07:40 og lendum þar klukkan 10:55 að staðartíma. Við tökum síðan flug klukkan 20:40 með Sri Lanka Airlines til höfuðborgar Sri Lanka, Colombo, þar sem við lendum klukkan 12:35 að staðartíma 5. Nóvember.

Dagur 2 | 5. Nóvember
Áfangastaðir: Colombo, Sri Lanka - Dambulla, Sri Lanka

Þennan dag keyrum við um 160 kílómetra langa leið til bæjarins Dambulla, á leið okkar þangað munum við stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og kynnumst fallegu umhverfinu, þorpum, sveitum og skógum. Við skoðum meðal annars byggingu af gerðinni Tampita Viharaya, þessi hús má finna við sum Búdda-hof á Sri Lanka eins og Sri Wijayasundara Ramaya hofið. Framhliðin er byggð úr grjóti og stendur á fjórum bergsúlum með ferhyrndu þaki, inngangurinn er stór dyragætt meitluð úr graníti. Talið er að Tampita byggingin í hofinu hafi þjónað sem vörslastaður heilagra muna Dambadeniya konungsríkisins. Í lok dags er Nidra Yoga.

Þessa nóttina gistum við á Amaya Lake Dambulla hótelinu eða svipuðu og borðum þar saman kvöldverð.

Dagur 3 | 6. Nóvember
Áfangastaðir: Dambulla, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Frjáls tími það sem eftir lifir dags svo hægt sé að ná áttum og jafna sig á tímamismuninum. Dambulla bærinn er þekktastur fyrir að geyma sum af best varðveittu og stærstu hella-hof svæðisins, þetta er heilagur staður með fleiri en hundrað Búdda-styttum sem finna má í stórri hellasamstæðu. Golden Rock hofið sem er hér er til dæmis á heimsminjaskrá UNESCO. Hægt er að skoða þessi hof eða þá rölta um bæinn til dæmis.

Við gistum áfram á Amaya Lake Dambulla hótelinu eða svipuðu.

Dagur 4 | 7. Nóvember
Áfangastaðir: Dambulla, Sri Lanka - Sigiriya Rock Fortress, Sri Lanka - Minneriya National Park, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Okkar fyrsti áfangastaður dagsins er Sigiriya Rock Fortress í um 25 mínútna fjarlægð með rútu. Þetta er okkar fyrsta ganga í ferðinni, hún telur um 1200 þrep og tekur um 2-3 klukkutíma í heildina. Ofan á þessum 200 metra háa bjargi er að finna rústir hallar sem eitt sinn stóð þar auk rústa annarra bygginga. Konungurinn Kashyapa reisti stórt hlið úr steini í mynd ljóns og fékk staðurinn nafnið Lion Rock í kjölfarið, hrammar ljónsins standa enn beggja megin stigans við innganginn. Virkið og nærliggjandi umhverfi er á heimsinjaskrá UNESCO og er talið eitt mesta undur Sri Lanka.

Næst höldum við til Minneriya þjóðgarðsins sem er í um 45 kílómetra fjarlægð. Þjóðgarðurinn er tæpir ~90 ferkílómetrar að stærð og er þekktur fyrir hinn mikla fjölda fílahjarða sem kalla hann heimili sitt. Hjarðirnar geta verið allt að 150 dýr að stærð hver. Hér eru einnig villtir vísundar, villisvín, dádýr, krókódílar, letibirnir, sjakalar, framandi fuglar og fleiri dýr. Það er einstök upplifun að sjá þessi framandi dýr lifa frjáls í sínu náttúrulega umhverfi.

Við endum daginn á Amaya Lake Dambulla hótelinu eða svipuðu þar sem við borðum saman kvöldverð.

Dagur 5 | 8. Nóvember
Áfangastaðir: Dambulla, Sri Lanka - Pidurangala Sigiri Rajamaha Viharaya, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Við keyrum síðan að Pidurangala Sigiri Rajamaha Viharaya hofi sem liggur við rætur fjalls. Hér hefst önnur ganga okkar sem tekur um 2½ - 3 klukkutíma. Við göngum í gegnum framandi frumskóg, yfir kletta og trjárætur að Pidurangala hofinu. Eftir stopp þar tekur við töluvert klifur milli stórra kletta og bjarga þar til við komum að Pidurangala klettinum. Við göngum upp á hann og þaðan njótum við óviðjafnanlegs útsýnis.

Við endum daginn á Amaya Lake Dambulla hótelinu eða svipuðu þar sem við borðum saman kvöldverð.

Dagur 6 | 9. Nóvember
Áfangastaðir: Dambulla, Sri Lanka - Nuwara Eliya, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Eftir morgunverðinn tekur við um 4½ klukkutíma ferðalag til borgarinnar Nuwara Eliya sem er þekktust fyrir framleiðslu á tei. Á leiðinni munum við heimsækja nokkra áhugaverða staði eins og Ibbankatuwa Megalithic grafhýsin sem talin eru vera frá forsögulegum tímum sem ná þúsundir ára aftur í tímann fyrir upphaf okkar tímatals.

Við gistum á Blackpool Hotel eða svipuðu.

Dagur 7 | 10. Nóvember
Áfangastaðir: Nuwara Eliya, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Eftir morgunverðinn leggjum við af stað í skoðunarferð um borgina sem er í um ~1900m hæð yfir sjávarmáli. Uppruna borgarinnar má rekja til ársins 1828 þegar enskur landkönnuður, Samuel Baker, stofnaði borgina og varð hún afdrep breskra landnámsmanna á Sri Lanka. Þessi ensku áhrif má greinilega sjá í menningu borgarinnar, allt frá klæðaburði heimamanna til arkitektúrsins og gælunafns borgarinnar - Little England. Bærinn er þekktur fyrir framleiðslu á tei, fallegu umhverfi og fjölbreyttu dýralífi.

Við göngum um bæinn og skoðum meðal annars söguleg kennileiti frá nýlendutímanum, heimsækjum Lake Gregory og Victoria Park, Seetha Amman hofið þar sem við kynnumst þjóðsögunum tengdum því og Nuwara markaðinn þar sem hægt er að gera góð kaup.

Við gistum áfram á Blackpool Hotel eða svipuðu og borðum saman kvöldmat.

Dagur 8 | 11. Nóvember
Áfangastaðir: Nuwara Eliya, Sri Lanka - Horton Plains National Park, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Þennan dag förum við í okkar þriðju gönguferð að Worlds End í Horton Plains þjóðgarðinum. Þessi gönguferð felur í sér mikið klifur og göngu, lengd ferðarinnar er um 9-10 kílómetrar og áætlaður göngutími um 3 klukkutímar í heildina. Við göngum um einstaka náttúru, hóla og fjöll, ár og kletta. Áfangastaður okkar er útsýnisstaðurinn Worlds End sem er í um 1200 metra hæð og útsýnið sem blasir við okkur þar er magnað sjónarspil. Þetta er ekki erfið ganga en getur tekið aðeins á. 

Við endum aftur í Nuwara Eliya þar sem gefst frjáls tími það sem eftir lifir dags. Við gistum áfram á Blackpool Hotel eða svipuðu.

Dagur 9 | 12. Nóvember
Áfangastaðir: Nuwara Eliya, Sri Lanka - Ella, Sri Lanka - Yala National Park, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Eftir morgunverð tekur við um 2 klukkutíma keyrsla til bæjarins Ella og okkar fjórðu gönguferðar. Á leið okkar til Ella munum við heimsækja te plantekru og bragða á teinu sem er ræktað þar. Gangan er að hluta til klifur sem tekur okkur upp í 2243 metra hæð og tekur í heildina 2-3 klukkutíma. Við göngum að Little Adam's Peak útsýnispallinum en nafnið fær þetta fjall því fjallinu svipar til Sri Pada eða Adam's Peak, heilags fjalls í menningu heimamanna þar sem finna má fótspor Búdda. Gangan sjálf upp á tindinn er ekki mjög erfið og til staðar er merktur göngustígur. Þetta er afar vinsæll áfangastaður sökum hinnar óviðjafnanlegu náttúru sem blasir við gestum.

Þegar við komum niður aftur er stutt keyrsla til Nine Arch Bridge eða "Bridge in the Sky". Brúin er frábært dæmi um járnbrautarbyggingu nýlendutímans og hugvits Englendinganna sem aðstoðuðu heimamenn sem byggðu hana árið 1921. Brúin er um 91 metra löng og tæplega 25 metra há og ef við erum heppin munum við sjá lest fara yfir brúna. Þetta er hiklaust einn af þessum stöðum sem ekki er hægt að heimsækja án þess að taka eins og eina ljósmynd eða svo.

Við endum daginn á ferðalagi til Yala þjóðgarðarins, tæplega 3 klukkutíma keyrsla og margt spennandi að sjá á leiðinni.

Við gistum á Jetwing Yala hótelinu eða svipuðu og borðum saman kvöldverð þar.

Dagur 10 | 13. Nóvember
Áfangastaðir: Yala National Park, Sri Lanka - Udawalawe National Park, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Við hefjum daginn á heimsókn til Udawalawe Elephant Transfer Home, dýraverndunarsvæðis í Udawalawe þjóðgarðinum sem gengur út á að koma munaðarlausum fílsungum á legg og aftur út í náttúruna. Starfsemin var stofnuð árið 1995 af náttúruverndarstofnun Sri Lanka og er rekin af ríkinu, sem er mjög óvenjulegt fyrir starfsemi af þessum toga.

Við skoðum þjóðgarðinn nánar og þau dýr sem lifa þar. Garðurinn samanstendur af fjöllum, skógum og ökrum og framandi náttúru. Hér eru ekki einungis fílsungar sem þarfnast aðstoðar, hér má finna hjarðir af villtum vísundum og tamda vísunda sem hafa aðlagast þeim villtu auka stórra hjarða af dádýrum. Villisvín, refir, apar, krókódílar, eðlur, hlébarðar og birnir lifa einnig í garðinum. 

Við endum daginn á Jetwing Yala hótelinu eða svipuðu og borðum saman kvöldverð þar.

Dagur 11 | 14. Nóvember
Áfangastaðir: Yala National Park, Sri Lanka - Galle, Sri Lanka - Colombo, Sri Lanka

Við byrjum daginn á yoga tíma og morgunmat. Að loknum morgunverði förum við í leiðangur um Yala þjóðgarðinn. Hann er vinsælasti þjóðgarðurinn í Sri Lanka vegna fjölbreytni dýralífsins sem býr þar. Hér eru skriðdýr af öllum toga, framandi fuglar eins og tilkomumiklir ernir og 44 tegundir spendýra. Garðurinn er þekktur fyrir sérlega mikinn fjölda fíla og hlébarða en líkurnar á því að sjá hlébarða eru meiri hér en á nokkrum öðrum stað í heiminum. Þessi dagur gleymist seint!

Næst höldum við til Galle virkisins sem heitir eftir samnefndri borg, keyrslan á milli erum 3 klukkutímar og munum við staldra við á ströndinni á leið okkar þangað þar sem gestum býðst að prufa kókoshnetumjólk. Virkið var upphaflega byggt af Portúgölum árið 1588 og síðar gert upp af Hollendingum þegar þeir tóku það yfir. Í dag er virkið eitt þekktasta sögulega minnismerkið um áhrif byggingarfræði evrópskra nýlendufara frá 16.-19. öld í Suðvestur Asíu. Eftir að hafa skoðað þetta stórfenglega mannvirki tekur við rúmlega 2 klukkutíma keyrsla til höfuðborgarinnar Colombo.

Við endum daginn á The Kingsbury hótelinu eða svipuðu.

Dagur 12 | 15. Nóvember
Áfangastaðir: Colombo, Sri Lanka

Við byrjum daginn á morgunmat og 1½ klukkutíma löngum yoga tíma í Colombo undir handleiðslu heimamanns. Því næst eigum við dekurstund í Spa Ceylon, heilsulind þar sem býðst mikið úrval af allskyns meðferðum og nuddi. Verðlagið er vægast sagt hagstætt miðað við það sem þekkist heima og hverjum og einum frjálst að velja sér það sem þeim hugnast best.

Við endum daginn aftur á The Kingsbury hótelinu eða svipuðu og borðum saman kvöldmat þar. Við hvílum okkur á hótelinu þar til við förum út á flugvöll.

Dagur 12 | 16. Nóvember
Áfangastaðir: London, England - Keflavík, Ísland

Keyrslan út á flugvöll tekur um klukkutíma. Flugið okkar er klukkan 02:25 að staðartíma og lendum við á Heathrow flugvelli í London klukkan 08:40.

Heimflugið frá Heathrow er klukkan 12:15 og lendum við á Keflavíkurflugvelli klukkan 15:30 að staðartíma.