Golf í Riga

Alls eru 12 golfvellir í Lettlandi og tveir þeirra eru 18 holu vellir, báðir eru í nágrenni Riga. Golf er tiltölulega nýleg íþrótt í landinu og því enn sem komið er tiltölulega fáir meðlimir í golfklúbbunum og því auðvelt fyrir ferðamenn að komast að til að spila. Golftímabilið í Lettlandi er frá byrjun apríl og út nóvember.

Ozo völlurinn

Ozo völlurinn er aðeins um 10 km frá miðborg Riga. Völlurinn sjálfur er 6.4 km langur, útbúinn sjálfvirkum vökvunarbúnaði á teigum og flötum og hefur að geyma 16 tjarnir og 50 sandglompur. Fyrri hluti vallarins er umvafinn spennandi landslagi og miklu skóglendi með þröngum brautum en seinni hlutinn liggur við ströndina og líkist þar meira þessum klassísku strandvöllum. Einnig er æfingasvæði á staðnum fyrir allar gerðir högga. Sjálft klúbbhúsið er afskaplega glæsilegt og hýsir veitingastað sem ber nafnið Bloom.

Stærstu mótin sem haldin hafa verið á vellinum eru Hansabank Baltic Open og eitt mót á SAS Masters mótaröðinni sænsku. Ozo völlurinn er helsta æfingasvæði lettneska landsliðsins í golfi.

Í bókinni „The World´s Golf Courses in 365 Days“ segir Robert Sidorski, golffréttamaður New York Times, að Ozo Golf Club væri einn af 365 athyglisverðustu golfvöllum heims. Að auki var völlurinn metinn einn af 1000 bestu golfvöllum Evrópu í bókinni „Europe‘s Top 1000 golf courses“. Ozo Golf Club hlaut viðurkenninguna “Best Natural Architecture Project in Latvia“ árið 2002 þar sem völlurinn þykir mjög skemmtilega hannaður með tilliti til náttúru og umhverfis en hann var hannaður af Bandaríkjamanninum Rob Svedberg.

Jūrmala völlurinn

Jūrmala völlurinn er 20 km frá Riga og er 18 holu völlur með 9 holu æfingavöll að auki. Þar er bæði „driving range“ og púttflöt. Völlurinn var nýlega endurhannaður frá grunni og lauk þeirri vinnu 2018. Völlurinn er talinn tiltölulega erfiður þar sem mikið er um tjarnir og sandglompur og krefst mikillar nákvæmni af spilurum.

Klúbbhúsið var tekið í gegn ásamt vellinum og er hið glæsilegasta. Þar er starfrækt hótel með sauna og veitingastað.

Viesturi völlurinn

Viesturi golfvöllurinn er 22 km frá Riga, hann er 9 holur og var fyrsti golfvöllurinn byggður í Lettlandi. Það er ódýrt að leika sjálfan völlinn og hægt að tylla sér niður á barnum eða veitingastaðnum að leik loknum.

Golfglaðir kylfingar á leið sinni til Riga eru sérstaklega hvattir til að taka hring á Ozo vellinum þar sem gestum stendur til boða að leigja búnað á staðnum.