Georgía er framandi og lítt þekktur áfangastaður meðal Íslendinga en Tbilisi má hæglega kalla einn af fallegri leyndardómum Austur-Evrópu þar sem öng- og breiðstræti lögð múrsteinum leiða gesti um borg þar sem áhrif fjölmargra fornra ríkja eins og Rómverja, Persa, Araba, Tyrkja og Írana auk bæði rússneska keisaraveldisins og Sovétríkjanna koma saman í heillandi og einstökum samhljóm sem endurspeglast vel í arkitektúr borgarinnar. Sögufræg baðhús og nútímalist, gestrisnir heimamenn og spennandi matarmenning eru meðal þess sem fær ferðalanga til að heimsækja Tbilisi og mæla með henni við vini og vandamenn.