Istanbúl er hrífandi samsuða af áhrifum Austurs og Vesturs þar sem heimsálfurnar Evrópa og Asía mætast. Istanbúl er gömul og stórkostleg borg sem á sér einstaka sögu og menningu, þar má sjá margvísleg áhrif hinna mismunandi heimsvelda sem réðu þar ríkjum. Borgin er þekkt fyrir spennandi útimarkaði, tilkomumiklar moskur og kirkjur, hallir, söfn og ríka matarmenningu. Meðal mest sóttu kennileita borgarinnar er hin heimsfræga Hagia Sophia moska sem hefur þjónað mismunandi hlutverkum í aldanna rás sem kirkja, moska, safn og í dag sem moska, einn elsti og stærsti bazaar markaður heims, Grand Bazaar auk þess sem Bosporussund fer í gegnum borgina. Borgin er gríðarlega vinsæll áfangastaður meðal kattarunnenda þar sem þá má finna á hverju horni og íbúar borgarinnar leggja sig fram um að tryggja þeim sem best lífsgæði. Þessi sérstaka alúð sem borgarbúar sýna köttunum kemur til vegna tengingar þeirra við hreinlæti sem er einn af burðarstólpum íslamskrar menningar og vegna þess að spámaðurinn Múhameð unni þeim umfram önnur dýr. Það verður svo sannarlega enginn svikinn af ævintýralegri ferð til Istanbúl.