Í Króatíu er borgin Dubrovnik ein fjölmargra gersema lands og þjóðar. Gestum hennar stendur margt til boða, hún á sér langa, stórbrotna og á köflum ævintýralega óheppna sögu sem vert er að kynna sér - borgin hefur lifað af nokkra stóra jarðskjálfta og elda auk innrása óvinveittra nágrannaríkja en þökk sé vilja og vinnu heimamanna hefur borgin risið líkt og fönix í hvert skipti. Við borgina eru notalegar strendur og veðurfar kjörið fyrir þá sem vilja njóta sumarblíðunnar við hafið, matar- og kokteilamenningin sem veitingamenn hennar leggja mikinn metnað í svíkur engan og fyrir aðdáendur Game of Thrones sjónarpsþáttanna eru fyrrum tökustaðir nánast á hverju horni. Gestir geta síðan heimsótt þær fjölmörgu eyjar sem liggja skammt frá borginni eins og eyjuna Lokrum, svo dæmi sé tekið.