Ferðaáætlun

Dagur 1
Áfangastaðir: Málaga, Spánn | Algeciras, Spánn | Tangier, Marokkó

Flogið er til Málaga á Spáni með Play þar sem enskumælandi leiðsögumaður/bílstjóri tekur á móti ykkur. Keyrt er frá flugvellinum til borgarinnar Algeciras þar sem tekin er ferja til borgarinnar Tangier í Marokkó þar sem enskumælandi leiðsögumaður/bílstjóri keyrir ykkur á hótelið ykkar, Rembrandt Hotel eða sambærilegt hótel.

Dagur 2
Áfangastaðir: Tangier, Marokkó | Asilah, Marokkó | Rabat, Marokkó | Casablanca, Marokkó

Dagurinn hefst á skoðunarferð um hafnarborgina Tangier sem á árum áður var vinsæll áfangastaður hinna ríku og frægu. Þið munuð meðal annars sjá Dar el Makhzen eða Höll Soldánsins, Cape Spartel höfðann sem er rétt fyrir utan borgina í um 300 metra hæð yfir sjálvarmáli og fyrir neðan þá eru tilkomumiklir hellar, Caves of Hercules, sem hetjan á að hafa nýtt sem áningarstað.

Næst er hinn forni og fallegi strandbær Asilah, hægt er að rekja búsetusögu heimafólks þar um 3.500 ár aftur í tímann. Hvítkölkuð hús byggð í stíl sem svipar til Miðjarðarhafsins gleðja augað og hæfa afslöppuðu andrúmslofti bæjarins, sem er þekktur sem vinsælt afdrep listamanna.

Að lokinni heimsókn ykkar til Asilah setjið þið stefnuna á hina fögru höfuðborg landsins, Rabat. Hér sjáið þið allt það helsta, Hassan turninn og grafhýsi Mohammed V fyrrum konungs Marokkó.

Þið haldið svo frá Rabat til Casablanca, stærstu borgar Marokkó og sennilega þekktustu borgar landins, miðstöð verslunar og þjónustu. Samnefnd Hollywood mynd frá árinu 1942, gerði borgina ódauðlega og ekki varð hún minna þekkt eftir að Hemingway gerði hana að heimili sínu um tíma.

Þið gistið á Oum Palace Hôtel & Spa Casablanca eða sambærilegu hóteli í Casablanca.

Dagur 3
Áfangastaðir: Casablanca, Marokkó | Marrakesh, Marokkó

Einn mest spennandi áfangastaður ykkar í Casablanca er Hassan II Moskan sem er ein sú stærsta í heiminum. Þessi vægast sagt stórfenglega bygging er 210 metra há og getur tekið á móti allt að 25,000 manns innandyra og upp í 80,000 fyrir utan þegar Múslimar safnast saman þar til bæna.

Marrakesh er næsti áfangastaður ykkar. Borgin er ein af fjórum borgum Marokkó auk borganna Rabat, Meknes og Fez sem eru yfirleitt kallaðar hinar konunglegu borgir. Hægt er að rekja sögu Marokkó aftur til ársins 1070 og sést það vel á byggingarstílum gamla borgarhlutans. Í gamla borgarhlutanum er hægt að finna mikið af fallegu handverki og öðrum munum. Þið munuð meðal annars heimsækja Jardin Majorelle lystigarðinn sem var hannaður af frönskum listamanni, Jean Majorelle og er garðurinn jafnan talinn einn sá fallegasti í borginni. Í dag er eigandi garðsins enginn annar en Yves Saint-Laurent.

Einnig heimsækið þið Koutoubia turninn, Saadian grafhýsin og Bahia Palace, sem var reist undir lok 19. aldar af vesírnum Si Musa og ber höllin nafn einnar af konum hans. Þið gistið í Marrakesh á Hôtel Dar Soukaina à Marrakesh eða sambærilegu hóteli.

Dagur 4
Áfangastaðir: Casablanca, Marokkó | Marrakesh, Marokkó | Ouarzazate, Marokkó | Dadès Gorges, Marokkó

Dagurinn hefst með keyrslu upp í Atlas fjöllin og á leið ykkar þangað keyrið þið um Tizi n'Tichka fjallaskarðið sem er ~53 kílómetra langt og í yfir 2000 metra hæð. Á leiðinni sjáið þið meðal annars Telouet Kasbah sem og Aït Benhaddou sem eru gömul virki byggð úr leir í byggingarstíla Mára og Berba. Aït Benhaddou var víggirt á 11. öld og er á heimsminjaskrá UNESCO enda eitt þekktasta kennileiti landsins og enn í dag býr þar fámennur hópur fólks. Áður fyrr þjónaði þessi virkisborg sem einn mikilvægasti áningarstaður ferðalanga á leið til og frá Sahara og Súdan svo dæmi séu tekin en í seinni tíð hefur hún verið notuð í fjölda Hollywood kvikmynda eins og The Gladiator, The Mummy og Lawrence of Arabia.

Borgin Ouarzazate við Sahara eyðimörkina er oft kölluð “dyrnar að eyðimörkinni”, þessi 70 þúsund manna borg er klárlega ein sú áhugaverðasta í Marokkó, að ganga stræti hennar er eins og að ganga inn í heim bókanna “Þúsund og Ein Nótt”. Hér heimsækið þið kasbah sem þýðir virki en þau eru víða í Marokkó, algengt var að ættbálkar og smærri hópar festu rætur einhversstaðar og byggðu sér virki til varnar.

Einnig heimsækið þið Dadès Gorges sem er röð gila sem hafa mótast í bergið vegna hreyfinga ánnar Dadès, þessi gil og dalir eru afar tilkomumikil sjón. Þið gistið á Riad Gabsi Dadès eða sambærilegu hóteli á svæðinu.

Dagur 5
Áfangastaðir: Dadès Valley, Marokkó | Todgha Canyon, Marokkó | Er-Rissani, Marokkó | Merzouga, Marokkó

Eftir morgunverð er lagt í skoðunarferð um Todgha gilin sem liggja djúpt um Atlas fjöllin, líkt og í Dadès giljunum hefur á grafið sig niður í kalkstein og skilið eftir sig þessi einstöku náttúrufyrirbrigði. Þar sem veggir bergsins eru hæstir nær brúnin 400 metra hæð.

Eyðimerkubærinn Er-Rissani er ykkar næsti áfangastaður og liggur hann á krossgötum norðurs og suðurs sem gerði hann að mikilvægri miðstöð verslunar áður fyrr, þessi gamli bær á sér afar áhugaverða sögu og fallegar byggingar sem nánast færa mann aftur í tíma.

Þennan dag farið þið í einstaka upplifun, þið ferðist um eyðimörkina á úlföldum með heimamönnum og kynnist þessum ferðamáta heimamanna. Eftir ferðalag á úlfaldabaki er farið til eyðimerkurþorpsins Merzouga nærri Erg Chebbi sandöldunum - þetta náttúruundur er eins og hafsjór af sandi frosinn í tíma.

Þessa nóttina gistið þið á Hotel Nomad Palace eða sambærilegu hóteli á svæðinu.

Dagur 6
Áfangastaðir: Ziz Valley, Marokkó | Erfoud, Marokkó | Azrou, Marokkó | Ifran, Marokkó | Fez, Marokkó

Þennan morgun býðst ykkur ótrúleg upplifun, að sjá sólina koma upp í eyðimörkinni.

Áfangastaður dagsins er borgin Fez, á leið ykkar þangað sjáið þið Ziz dalinn og heillandi náttúruna sem þar er. Þið staldrið við á leið ykkar í eyðimerkurþorpinu Erfoud sem er þekktast fyrir hinn mikla fjölda og fjölbreytni steingervina sem hafa fundist þar - svo ekki sé minnst á allar Hollywood kvikmyndirnar sem hafa verið teknar upp að hluta á svæðinu. Heimamenn í Erfoud framleiða marmara sem inniheldur steingervinga, einstök listasmíð og fyrirvinna margra íbúa þorpsins.

Næsti áningarstaður eru bærinn Azrou en nafnið þýðir “grjót” eða “berg” á tungumáli Berba. Við bæinn er mikið skóglendi, fullt af sedrusvið og öpum sem þar búa og eru margir hverjir orðnir mjög gæfir - það er ekki óþekkt að gestir gefi þeim jafnvel smáræði að borða.

Seinasti áningarstaður dagsins áður en við komum til Fez er bærinn Ifran, þekktur fyrir sérkennilegan arkitektúr í samanburði við aðra staði í Marokkó en bærinn liggur í miðjum Atlas fjöllum og býr meðal annars yfir skíðasvæðum.

Þið endið daginn í Fez þar sem þið gistið á Riad Dar Jeanne eða sambærilegu hóteli.

Dagur 7
Áfangastaðir: Ifran, Marokkó | Fez, Marokkó

Fez, auk borganna Rabat, Meknes og Marrakesh, eru yfirleitt kallaðar hinar konunglegu borgir. Fez er ein elsta borg landsins með sögu sem nær aftur til 8. aldar. Hún er dularfull, rík og miðstöð bæði menningar og trúar í landinu. Gamli hluti borgarinnar eða Medina er ein best varðveitta menningararfleifð sinnar tegundar á heimsvísu. Þið farið í skoðunarferð um borgina með fararstjóra ykkar sem kynnir ykkur fyrir því sögulega djásni sem borgin er.

Fez er þekkt fyrir vandaðar leðurvörur og framleiðslu og þessir gripir eftirsóttir. Í borginni er einnig að finna staði eins og konungshöllina, al-Qarawiyyin háskólann sem er elsti starfandi háskóli heimsins sem hægt er að hljóta háskólagráðu frá.

Eftir skoðunarferðina er haldið til borgarinnar Chefchaouen sem liggur í 600 metra hæð í fjallahéraði, skammt frá Rif fjöllunum. Borgin á sér sögu aftur til 14. aldar og státar af hinu magnaða gælunafni, “Bláa Borgin”, sökum þess að húsin eru öll blá. Þið eigið notalega stund í borginni, skoðið Suk markaði og litlar verslanir eða þá götuvagna þar sem handunnir munir og listaverk fást keypt.

Að lokinni heimsókninni til Chefchaouen keyrið þið aftur til Tangier þar sem þið gistið á Rembrandt Hotel eða sambærilegu hóteli fyrir heimferðardag.

Dagur 8
Áfangastaðir: Algeciras, Spánn | Málaga, Spánn | Keflavík, Ísland

Þið takið ferjuna frá Tangier til Algeciras þar sem tekið verður á móti ykkur og þið keyrð á flugvöllinn í Málaga fyrir heimflugið ykkar seinni part dags.