Hagnýtar upplýsingar

Almennar hagnýtar upplýsingar 1. Fatnaður, klæðaburður o.fl.: Hafa góða yfirhöfn með sér.  Vera vel skóaður – t.d. létta gönguskó. Á þessum tíma

Hagnýtar upplýsingar

Almennar hagnýtar upplýsingar

1. Fatnaður, klæðaburður o.fl.:
Hafa góða yfirhöfn með sér. 
Vera vel skóaður – t.d. létta gönguskó.

Á þessum tíma verður hitinn á bilinu 15-25 gráður þannig að vert er að taka með sér föt í samræmi við það. Gott er þó að hafa með sér einhverja góða yfirhöfn og vera vel skóaður.

2. Tryggingar – forfalla- og sjúkratryggingar:
Hægt er að kaupa sér forfallatryggingu hjá tryggingafélögum og stundum er hún innifalin í heimilistryggingu, hver aðili þarf að kanna sín mál. Sé ferðin greidd að helmingi eða meira með greiðslukorti gilda ferðatryggingar kortafyrirtækjanna, en þær ná til ferðar sem stendur ekki lengur en 60 daga. Þar sem flugið er að öllu leyti greitt með kreditkorti til ferðaskrifstofunnar Transatlantic ættu slíkar tryggingar að duga. Hins vegar mælum við með því að fólk taki sér viðbótartryggingar og hafi í þeim efnum samband við sitt tryggingafélag. Ennfremur er nauðsynlegt að athuga hvaða sjúkratryggingar hver og einn hefur þar sem sjúkrakostnaður fyrir Vesturlandabúa getur verið nokkuð hár í Kína. Hér er enn og aftur best að hafa samband við sitt tryggingafélag og ganga frá öllum sjúkratryggingum áður en ferðin er farin. Í sumum tilvikum – allt eftir tegund kreditkorts – eru sjúkra- og slysatryggingar innifaldar. Neyðarsímar kortafyrirtækjanna (opnir allan sólarhringinn) eru: VISA:+354 525 2000;  MC:+354 533 1400.

3. Peningamál:
Opinbert heiti á gjaldmiðlinum í Kína er Renminbi (RMB) sem þýðir í raun “Peningar fólksins”. Grunneiningin nefnist yuan (CNY) og 1 yuan u.þ.b. 8,5 ísl. kr. Í hverri yuan eru 10 jiao (oft kallað maó) sem er svo skipt í 10 fen. Seðlar eru gefnir út í eftirfarandi einingum: 1, 2, 5, 10, 20, 50 og 100. Oft getur verið erfitt að greiða með 100 yuan (850 ísl. kr.) þar sem talsvert er um peninga¬falsanir í Kína. Rétt er að hafa með sér greiðslukort (kreditkort – ekki debetkort!) og gjaldeyri í doll¬urum. Greiðslukort er hægt að nota á betri hótelum og veitingastöðum en almennt séð er kortanotkun mjög lítil í Kína. Því er betra að vera með reiðufé á sér sem hægt er að nálgast í hraðbönkum. Þá er að finna á flugvöllum eða í útbúum Bank of China og/eða öðrum stærri bönkum. Gjaldeyrisskipti „Exchange Office” eru á hótelum og víða í stærri borgum (opnar frá 7 til 20). Þar er hægt að skipta ferðatékkum og erlendum gjaldmiðlum. Auðveldast er þó að skipta dollurum. Hafa í huga að halda til haga kvittunum þegar peningum er skipt til að geta skipt aftur afgangsseðlum þegar farið er frá Kína. 

4. Þjórfé:
Almennt séð er þjórfé ekki gefið í Kína en ákveðnar reglur gilda í sambandi við rútu¬bílstjóra (2$ á dag), innlenda leiðsögumenn (3$ á dag) og burðarmenn (1$ fyrir hverja tösku). Fararstjórar munu rukka inn þessa upphæð í rútunum eftir hvern dag.

5. Vatn:
Almennt séð er kranavatn ekki drykkjarhæft. Allt í lagi er að nota það til að bursta tennurnar. Drekkið því aðkeypt vatn og athugið vel hvort að flöskurnar séu innsiglaðar, þ.e. ekki opnar. Best að kaupa vatn í flöskum í hótelinu eða í sjoppum. Einnig er gott að forðast ísmola út í drykki þar sem þeir eru gerðir úr kranavatni. Einnig eru ferskir ávaxtasafar oft útþynntir með kranavatni. 

6. Rafmagn:
Í Kína eru 220V eins og á Íslandi. Í flestum tilvikum þarf engin millistykki eða spennubreyta. Evrópskt kerfi eru víða viðtekið.

7. Dagblöð:
Hægt er að kaupa ýmis vestræn blöð í Kína – einkum á alþjóðlegum flugvöllum. Helsta málgagn kínverskra stjórnvalda, China Daily er með mesta upplag dagblaðs á ensku í Kína (sjá frekar http://www.chinadaily.com.cn/). Hægt er að nálgast blaðið á hótelum og víða í búðum.

8. Símamál:
86 er landsnúmer fyrir Kína og 10 er svæðisnúmer Pekingborgar. Fararstjórar munu hafa kínverskt farsímanúmer meðan á ferðinni stendur. Nánari upplýsingar farsímanúmer verður gefið síðar. Við ráðleggjum ykkur ekki að nota síma á hótelinu til að hringja heim Best er að kaupa sér símakort og nota símaklefa eða einfaldlega kaupa kínverskt SIM kort  (Y 200) í farsímabúðum (sem kallast shoujidian). Dýrt er að hringja úr íslenskum farsímum og kostar til dæmis mín. hjá Vodafone á bilinu 180-250 kr. Við mælum því með að þið athugið verð á farsímaþjónustu hjá ykkar þjónustufyrirtæki áður en lagt er af stað.

9. Tímamunur:
8+ tíma munur er á Beijing og Reykjavík. Þegar kl. er 10 um morgun hér þá er kl. 18 í Beijing (Kína). Stjórnvöld skilgreina Kína sem eitt tímabelti þannig að sami opinberi tíminn er í Beijing og Lhasa (Tíbet).

10. Snyrtingar og klóset:
Almennt séð eru almenningsklóset frekar frumstæð þannig að betra er að forðast þau. Nota þess í stað klóset á veitingastöðum eða hótelum. Ágætt er að festa í minni táknin fyrir kvenna- og karlaklóset:kvennaklóset karlaklóset

11. Leigubílar (chuzu qiche) og samgöngur:
• Beijing er mjög stór og því erfitt að fara á milli staða fótgangandi. Við mælum með því að þið takið leigubíla en þeir eru frekar ódýrir - um 30 yuan eða 255 kr. innan Beijing borgar.
• Leigubílstjórar tala sjaldan ensku þannig að gott er að hafa meðferðis kort eða uppáskrifað hvert ferðinni er heitið.
• Flestir leigubílar eru með mæla en sumir hverjir eru það ekki og ber að forðast þá. Þeir eru þá oftast ómerktir. Muna svo að biðja leigubílstjórann að kveikja á mælinum ef hann gleymir því – nota hér bendingar.
• Metrókerfið í Beijing er nokkuð gott og er verið að stækka það núna m.a. vegna Olympíuleikanna.

12. Glæpir og öryggi:
Almennt séð er ekki mikið um glæpi í helstu borgum landsins. Hins vegar þarf ávallt að vera á varðbergi og passa upp á eigur sínar, einkum á ferðamannastöðum og í marg¬menni. Helst ekki ferðast um ein og gott er að vera mörg saman í hóp og fara ekki inn á fáfarnar götur. Passa sig vel á vasaþjófum, einkum í mannmergð. Alls ekki að flagga peningum eða öðrum verðmætum úti í götu. Í borgum eins og Xian er meira um smáglæpi heldur en í Beijing og er varað þar við vasaþjófum.

13. Verðlag og verslanir:
Verðlag í Kína er nokkuð hagstætt þó svo að það fari hækkandi með hverju árinu. Í verslunum og annars staðar er reynt að græða á ferðamönnum og má segja að tvö verð séu í gangi, annars vegar fyrir heimamenn og hins vegar fyrir ferðamenn. Þess vegna borgar sig að vera duglegur að prútta, einkum í smærri verslunum og mörkuðum. Í stærri verslunum eru gefin upp föst verð. Best er að forðast minjagripaverslanir á hótelum þar sem verðlag þar er mun hærra en gerist og gengur annars staðar.

14. Vegabréf og önnur leyfi:
• Passa vel upp á vegabréfið sitt.
• Ágætt er að taka ljósrit af vegabréfinu og hafa það á vísum stað.
• Vegabréfið þarf að vera í gildi í sex mánuði eftir að heim er komið.
• Sækja þarf um áritun til að komast til Alþýðulýðveldisins. Við munum sækja um sovkallaða hópáritun og kostar þá áritunin 3000 kr.
• Þið þurfið að láta Hendrik fá um miðjan janúar passaljósmynd, útfyllt umsóknareyðublað, vegabréfið ykkar og 3000 kr fyrir áritunarkostnaði. 

15. Veðurfar: 
Á því tímabili sem ferðin stendur má búast við allt að 12°- 25° C hitastigi í Kína.
Slóð í síðu um veðurfar: http://www.weather.com/ Sláið inn t.d. Beijing.
Hægt er að fara á Google og setja í leitarstrenginn t.d.: 32 fahrenheit in celsius og þið fáið hitastigið í Celsius.

16. Morgunverður:
Er á hótelunum frá 06:30–9:30, eins og gengur og gerist. Oft er val á milli þess að borða vestrænan eða kínverskan morgunmat. Á þeim hótelum sem við munum dvelja á er boðið upp á morgunverðarhlaðborð.  

17. Bólusetningar:
Áður en ferðast er til Austurlanda þarf að huga vel að bólusetningum við sjúkdómum sem kunna að gera vart við sig. Sumar bólusetningar verður að endurtaka fyrir brottför þannig að rétt er að huga að þeim í tíma. Það er einfaldlega góð regla að ráðfæra sig við heimilis¬lækni eða aðra sérfræðinga um þessi mál og þau svæði sem á skal halda. Meðal þeirra sjúkdóma sem að fólk hefur verið bólusett við er lifrarbólga A, lifrarbólga B, taugaveiki, gulusótt, japönsk heilahimnubólga, barnaveiki og stífkrampi. Við mælum einna helst með að fólk bólusetji sig við lifrarbólgu A sem smitast einkum með matvælum og vatni. Hér leggjum við þó áherslu á að þið ráðfærið ykkur við heimilislækni.
 
18. Spítalar:
Vestrænir spítalar eru í Peking og Hong Kong og með auknum framförum og stríðari straumi útlendinga til borga eins og Guangzhou og Sjanghæ eykst og eflist læknisþjónusta á ensku.

19. Flugið til Kína:
Þar sem talsvert verður flogið í ferðinni er gott að ráðfæra sig við heimilislækni áður en lagt er af stað. Stundum getur verið gott að taka inn hjartamagníl á meðan á ferðinni stendur og jafnvel nokkrum dögum fyrir upphaf ferðar. Þar með er hægt að koma í veg fyrir blóðtappamyndun. Í sjálfu fluginu er svo hægt að fyrirbyggja blóðtappa með því að standa reglulega upp og gera æfingar (sjá hér tengil inn á heimasíðu British Airways í sambandi við þetta - http://www.britishairways.com/travel/healthdvt/public/en_gb). Við ráðleggjum ykkur einnig að drekka mikið af óáfengum vökva og takmarka alla áfengisneyslu fyrir og á meðan á fluginu stendur.

headerheaderheaderheader
Síðumúli 29 - 108 Reykjavík | Strandgata 29, 2 hæð, 600 Akureyri |Sími 588 8900 | info@transatlantic.is | www.transatlantic.is
Vertu vinur okkar á FacebookStefna ehf Hugbúnaðarhús - Moya